Minningarorð um Einda

Á lífsleiðinni verða stundum atvik sem valda því að einstaklingur sem maður hefur ekki endilega mikil eða langvarandi samskipti við stendur samt alltaf hug manns nærri. Þessi hugsun kom upp í kolli mínum nýverið, þegar ég frétti af andláti Einars Ó. Valdimarssonar frá Kirkjubæjarklaustri.

Kirkjubaejarklaustur-3Samskiptin sem mér var hugsað til voru frá því snemma á níunda áratugnum. Hinn ljúfi „eighties“ áratugur. Þá var ég unglingur en Einar, eða Eindi eins og hann oftast var kallaður, var í mínum augum rígfullorðinn maður. Eins og gjarnt er að krakkar og unglingar líta á fólk sem er orðið fullorðið en er þó í reynd ekki svo óskaplega mikið eldra.

Á þessum árum var Einar á besta aldri, fjölskyldumaður með tvo unga krakka og stýrði Kaupfélagi Skaftfellinga á Klaustri. Þar var hann útibússtjóri um árabil og réð mig í mína fyrstu sumarvinnu þarna á fimmtánda aldursári mínu. Þetta eru löngu horfnir dagar, núna þegar smartsímar og internet hafa fært okkur öll svo nálægt hverju öðru. Í bláum millisíðum Kaupfélagssloppnum lærði ég að þekkja milli 2ja og 3ja tommu saums á lagernum, höndla bremsulítinn lyftarann og hversu miklu léttari graskögglapokinn var miðað við áburðarpokann. Best var þó að finna hvernig líkaminn allur vaknaði til lífsins við það að keyra tuttugu tonn af áburði út í sveitir í mígandi vorrigningu með Jóni bílstjóra úr Vík.

Einar-Vald_KjarvalÖll þau 36 ár sem liðin eru frá þessu sumri í Kaupfélaginu á Klaustri hefur mér alltaf verið hlýtt til Einars. Hann var ákaflega vinsamlegur við nýgræðinginn mig og passlega ákveðinn í stjórn sinni á starfseminni í kaupfélaginu. Og ég var afar þakklátur honum þegar hann hóaði í mig einn daginn að koma inn á skrifstofuna - og stakk upp á því að ég færi í bensínafgreiðsluna „úti í sjoppu“. Sem á þeim tíma var einfaldur skúr niður við brú, kallaður því virðulega nafni Skaftárskáli.

Þar afgreiddi ég eldsneyti, fyllti á gaskúta og handlangaði glussa öll menntaskólasumrin. Og hafði satt að segja gaman af, enda oft mikið fjör í sjoppunni hvort sem var sólarsumur eða rigningasumur. Ekki skemmdi vaktaálagið og helgarvinnan fyrir, þegar launaseðillinn kom úr aðalstöðvum Kaupfélagsins í Vík.

Á þessum tíma var ennþá langt í sjálfsafgreiðslustöðvar og rútur frá Úlfari Jacobsen eða Guðmundi Jónassyni, fullar af Þjóðverjum í kjánalegum hnébuxum, gátu rennt í hlað hvenær sem var. Þess vegna var almennilegur opnunartími á þessum árum; til kl. 11 hvert einasta kvöld alla daga vikunnar. Og á hverju einasta kvöldi upp úr ellefu kom Einar í rólegheitum á Volvonum eða gamla græna Land Rovernum til að gera upp kassann. Og í hvert einasta sinn var hann skapgóður og þægilegur í viðmóti.

Einar var einungis 72ja ára þegar hann lést nú fyrr í mánuðinum. Það er leitt að maður skuli ekki gera meira af því að segja fólki sem hefur reynst manni vel, frá því og að maður sé þakklátur í hjarta fyrir þau samskipti. Ég held að ég hafi því miður aldrei þakkað Einda fyrir þau góðu samskipti sem ég átti við hann hér í Den. Enda var maður á þeim tíma kannski meira fyrir að hugsa um aðra hluti eins og unglingum er tamt. Ég votta fjölskyldu Einars samúð mína.

----------

Myndina hér að ofan af Einari á fjórða aldursári málaði Kjarval af honum, en Kjarval var tíður sumargestur á Kirkjubæjarklaustri. Myndina leyfði ég mér að grípa af Fésbókarsíðu Hauks Valdimarssonar, bróður Einars.


Íslendingur í Bakú

Rosalega er gaman að upplifa eitthvað sem kemur manni skemmtilega á óvart. Og þannig reyndist vera þegar ég sótti olíuborgina Bakú heim s.l. vor.

baku-night-1.jpg

Bakú er höfuðborgin í Azerbaijan; lands sem liggur á mótum Evrópu og Asíu. Eins og flestir ættu að vita var Azerbaijan hluti af Sovétríkjunum, en er í dag sjálfstætt ríki með um 9 milljónir íbúa. Þar af búa um 2 milljónir í Bakú.

Í meira en hundrað ár hefur nær allt efnahagslíf í Azerbaijan snúist um olíu. Svæðið við Bakú var eitt fyrsta olíuvinnslusvæði heimsins og þarna átti sér stað eitt mesta olíuævintýri allra tíma um aldamótin 1900 með tilheyrandi uppsprettu auðs og valda. Efnuðustu olíubarónar Azera slógu jafnvel út sjálfan Rockefeller, enda var Bakú á þeim tíma álitin einhver glæsilegasta og fjörugasta borg veraldar og gjarnan nefnd "París austursins". En kapítalisminn í Bakú fékk snöggan endi í rússnesku byltingunni, þegar bolsarnir þjóðnýttu olíufyrirtækin og sendu eigendur þeirra í fangabúðir í Síberíu.

Sökum þess að síðari heimsstyrjöldin náði aldrei til Bakú standa flestar gömlu glæsibyggingarnar enn. Þó svo innrás þýska hersins í Sovétríkin hafi fyrst og fremst haft þann tilgang að ná olíulindunum við Bakú, náði þýski herinn jú aldrei suður fyrir Kákasusfjöll. Þar réð úrslitum hin ægilega orrusta við Stalíngrad.

azerbaijan-caspian-map_1060914.pngVið fall Sovétríkjanna í upphafi 10. áratugar liðinnar aldar varð Azerbaijan sjálfstætt ríki. Azerbaijan er stærsta landið í Kákasushéruðunum, en er samt talsvert minna en Ísland. Landið á langa strönd að Kaspíahafi; því undarlega landlukta hafi sem skilur að Indóevrópumenn og fólk af asískum kynstofni. Austan Kaspíahafsins liggja lönd eins og Kazakhstan og Túrkmenistan og litlu austar er Uzbekistan. Og þá er maður farinn að nálgast sjálft Kína.

Mér hefur alltaf þótt þetta svæði vera svolítið útúr - eins og einhver dularfullur dalur í Ævintýrabók. Þessi heimshluti virðist eitthvað svo innilokaður af Svartahafi, Rússlandi, Kaspíahafi og Persíu. Maður á bágt með að trúa að þarna liggi borg sem á sínum tíma þótti jafnvel glæsilegri og vera ennþá meiri heimsborg heldur en sjálf New York. Og núna var ég loksins kominn á þessar fjarlægu slóðir.

Augun svolgruðu í sig allt sem við blasti úr leigubílnum á leið til borgarinnar frá flugvellinum. Bíllinn ók eftir prýðilegri hraðbraut en umferðin var lítil, enda eldsnemma morguns. Þarna var sléttlendi en sjá mátti smá hæðir inn til landsins. Ekki sást til fjalla, enda stendur Bakú nokkuð langt frá Kákasusfjallgarðinum. Brátt birtist Kaspíahafið á hægri hönd og við nálguðumst úthverfin með blokkum í Sovétstíl. 

Þessi síðasti flugleggur ferðalagsins hafði verið næturflug frá Kænugarði í Úkraínu. Flugvélin var heldur hrörleg rússnesk farþegaþota. Hún reyndist vera stútfull af Azerum - sem mér þóttu nokkuð þungbúnir á svip. En Azerarnir í Bakú áttu svo sannarlega eftir að reynast allt annað en þungir á brún.

ketill_baku_flag-1.jpgÞessa apríldaga sem ég dvaldi í Bakú (2010) var enn vart farið að örla á vorinu. Vindurinn barði borgina og Kaspíahafið var grátt og hryssingslegt yfir að líta. En risastór fáni Azerbaijan blakti tignarlega við fallegan göngustíginn við ströndina - og þegar sólin ruddist gegnum skýin fann maður að þarna eru örugglega yndisleg sumur.

Það var mjög notalegt að rölta eftir sjónum og skoða skipin og lúxus-snekkjurnar í höfninni - og langt í fjarska mátti greina nokkra olíuborpalla útí Kaspíahafinu. Sem fyrr segir standa enn margar af glæsibyggingunum sem reistar voru á dögum olíuæðisins í Bakú fyrir meira en heilli öld síðan. Og gamla miðborgin er víða afar falleg og sjarmerandi.

Azerar eru nær allir múslímar, en langt í frá í þeim skilningi sem mörg okkar í vestrinu freistast til að hafa um þau trúarbrögð. Þarna gengur fólk t.a.m. mjög svipað til fara eins og hér heima - unglingsstrákarnir reyndar nánast undantekningarlaust í svörtum leðurjökkum og gallabuxum - og stelpurnar ekki síðri pæjur en hér í vestrinu. Enda er skemmtanalífið í borginni af mörgum sagt með því besta í heimi (sjálfur lét ég ekki reyna á það í þessari ferð). Áfengi er ekkert feimnismál og reyndar er azerski bjórinn Xirdalan með þeim allra bestu sem ég hef smakkað! Grínlaust. Azerski maturinn var líka prýðilegur - mikið um grænmetisrétti en einnig góða fisk- og kjötrétti og minnti maturinn mig stundum svolítið á tyrkneskt eldhús.

baku-shore.jpgTil að upplifa borgina sem sterkast dvaldi ég á hóteli sem lá við eina af þröngu götunum í gamla miðbænum. Flest eru alþjóðlegu hótelin í Bakú örlítið utar. Þetta var lítið hótel í eigu vörpulegs Ameríkana á miðjum aldri, sem blandaði geði við mann við morgunverðarborðið í litla morgunverðarherberginu. Ekki tókst mér að fá upp úr honum hvernig hann hafði ratað til Bakú af öllum stöðum í veröldinni. Þessi svolítið dularfulli og hægláti gestgjafi hefði svo sannarlega verið upplögð persóna í skáldsögu eftir Graham Greene. Ég fann að þarna hlyti djúpt leyndarmál að liggja að baki.

Í útliti hygg ég að helst megi líkja Azerum við Tyrki eða Persa - eða sambland þar á milli. Hugsanlega hafa Kákasusfjöllin í gegnum tíðina komið í veg fyrir mikla blöndun við Rússana í norðri eða nágrannaþjóðirnar í vestri. Azerar hafa löngum haft sterk tengsl við Tyrkland og í dag er mikið um Tyrki sem starfa í Bakú.  Stúlkan í móttöku hótelsins reyndist einmitt vera frá Istanbúl. Af þessari stuttu dvöl ályktaði ég að milli Azera og Tyrkja ríki ákveðið bræðraþel - og sennilega best að fá báðar þessar þjóðir sem fyrst í ESB!

azerbaijan-oil-donkeys.jpgÞarna hafa Persar líka stundum vaðið yfir, enda varla nema rétt rúmir 200 km frá Bakú og suður að landamærunum að Íran. Því miður gaf ég mér ekki tíma til að skjótast þangað suður-eftir.

Í staðinn ók ég útúr borginni til að kíkja á olíusvæðin sem liggja næst henni. Það er mikið furðuland; borturnar og olíuasnar (oil donkeys) eru eins og skógur umhverfis borgina. Nema hvað þessi samlíking er kannski óheppileg að því leyti að þarna er ekki stingandi strá að sjá og jarðvegurinn bersýnilega víða orðinn mjög mengaður af langvarandi olíuvinnslunni.

Þó svo þarna væru skilti útum allt sem sögðu myndatökur bannaðar var stolist til að smella af nokkrum myndum. Ég stoppaði líka við einn af gaseldunum eilífu sem loga sumstaðar í löndunum við Kaspíahaf. Þar er um að ræða gasuppstreymi úr jörðu, sem gefur vel til kynna geggjaðar kolvetnisauðlindirnar sem þarna er að finna. Fór líka að sveitasetri Murtuza Mukhtarov's, sem var einn af helstu olíubarónunum í Bakú áður en Sovétið varð til, en þar er nú opinber grasagarður kringum gamla glæsihúsið.

Inni í borginni var líka margt að sjá. Þess má geta að nánast engir ferðamenn sáust í borginni. Þeir fáu útlendingar sem voru á hótelinu eða maður sá á götum úti voru bersýnilega í viðskiptaerindum. Á sumrin mun þó vera talsvert um ferðafólk í Bakú. Víðast hvar er borgin afar snyrtileg og allsstaðar verið að gera upp gömul hús og laga götur og torg. Líklega er þessi verkamannavinna lausn á dulbúnu atvinnuleysi, kostuð af ofsalegum olíugróðanum.

baku-war.pngÖllu dramatískara var að vappa um hermannagrafreitinn þar sem legsteinar í tuga- ef ekki hundraðatali báru myndir af þeim ungu mönnum sem þar liggja undir; hermenn sem hafa fallið í átökum við Armeníu um héraðið Nagorno-Karabakh.

Þegar ég svo fór að rækja erindi í háskólann, frétti ég að einungis um ári áður hafði maður þar skyndilega dregið upp skotvopn á látið kúlnahríðina dynja á nemendum og starfsfólki háskólans. Meira en tugur manna lést og annar tugur lá í sárum.

Þarna er sem sagt svolítið ótryggt ástand og kannski ekki að undra að í Bakú voru ábúðarfullir lögreglumenn á hverju strái. En sjálfur varð ég ekki fyrir minnstu afskiptum frá þeim, né nokkrum óþægindum meðan ég dvaldi í landinu. Og hef satt að segja sjaldan kynnst jafn hjálpsömu og þægilegu fólki eins og íbúum Bakú. Einfaldlega yndislegt fólk.

Svo finnst mér alltaf skemmtileg sú kenning Thor's Heyerdahl um að norrænu víkingaþjóðirnar hafi a.m.k. að hluta til komið frá Azerbaijan. Og þaðan komi hugtakið Ás (Æsir). Kannski tómt bull - en ég fann samt fyrir góðum fíling þarna í olíusullinu austur í Bakú. Eitt eftirminnilegasta og ánægjulegasta ferðalag mitt var senn að baki og tímabært að halda út á Heydar Aliyev flugvöll. En svo fór Eyjafjallajökull að gjósa af krafti og fyrir vikið varð ég strandaglópur í Kiev í Úkraínu. Sem reyndist bara skemmtilegur bónus á frábæra ferð.

 


Vor í Sydney

Fyrir um áratug var bloggarinn nokkra mánuði suður í Sydney í Ástralíu. Þar var einmitt rétt i þessu verið að fagna nýju ári; 2010. Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu, skömmu eftir heimkomuna: 

Sydneybúar undirbúa sig nú af kappi fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða þar næsta "vor", þegar haust gengur í garð hjá okkur á Íslandi á þessu herrans ári 2000. Ketill Sigurjónsson stundaði lögfræðistörf í nágrenni við Ólympíuleikvanginn um nokkurra mánaða skeið, á milli þess sem hann buslaði í Kyrrahafinu með eiginkonu og dóttur. Hér segir frá lífinu í þessari afskekktu heimsborg.
 
Qantas-flugvélin með stílfærða rauða kengúru á stélinu lenti með okkur síðla kvölds á sömu slóðum og kapteinn Cook tók land fyrir tæpum 230 árum. Það var við sólarupprás 19. apríl 1770 sem fyrstu Evrópumennirnir litu austurströnd Ástralíu augum. Sjóliðsforinginn James Cook hafði nýlokið farsælli sex mánaða siglingu umhverfis Nýja Sjáland og kortlagt strandlengjuna af ótrúlegri nákvæmni. Að því verki loknu var skipi hans, Endeavour, beint í vesturátt í því skyni að komast til botns í ráðgátunni um hið meinta Terra Australis Incognita og stærð Nýja-Hollands (svo nefndu Evrópubúar það land sem við þekkjum í dag sem vesturströnd Ástralíu). Eftir mánaðar siglingu frá Nýja Sjálandi varð áhöfnin vör við nokkur fiðrildi og fáeina smáfugla og nokkru síðar birtist þeim land. Siglt var norður með ströndinni uns komið var að flóa sem þótti hentugt akkerislægi. Það vakti athygli siðprúðra Bretanna að frumbyggjarnir sem þeir sáu notuðu "ekki einu sinni fíkjublað til að hylja nekt sína", eins og segir í dagbók grasafræðingsins Joseph Banks. Evrópumenn voru fljótir að innleiða sitt siðferðismat og Sydney "státar" nú af einu helsta dóp- og melluhverfi í Suðurhöfum.
 
sydney_aramot_2010.jpg

Flóinn umræddi var nefndur Botany Bay (Grasaflói) sökum hinnar fjölbreyttu flóru sem þar var að finna. Nú teygja upplýstar flugbrautir sig út í áður óspilltan Grasaflóann og stórar breiður af olíugeymum standa þar sem frumbyggjarnir réðu ríkjum. Þrátt fyrir kvöldmyrkrið og ferðaþreytuna eftir 11 klst. flug frá Kaupmannahöfn til Bangkok og 9 stundir að auki þaðan til Sydney máttum við til með að fara hringferð um miðborgina áður en haldið yrði "heim" í úthverfin. Ástralskt vinafólk okkar, sem tók á móti okkur á flugvellinum, sá til þess að leiðin lægi fram hjá flóðlýstu óperuhúsinu, sem minnti á skip undir fullum seglum í gömlu höfninni (Port Jackson). Upp frá höfninni var þrætt á milli háhýsanna sem umkringja lágreistu nýlendubyggingarnar og ekið yfir Hafnarbrúna (Sydney Harbour Bridge), sem lokið var við að byggja 1932 og er enn í dag óvenju glæsilegt mannvirki. Blóðhlaupin augu okkar Þórdísar stóðu á stilkum en litli brjóstmylkingurinn lét sér fátt um finnast og bætti á sig einum blundi enn.

Það tók mig næstum tvo sólarhringa að ná áttum á ný. Á öðrum degi staulaðist ég útí garð þar sem þær mæðgur sátu í mestu makindum og fylgdust með virðulegri garðeðlunni af blátunguætt (blue tongued skink) og öldruðum heimiliskettinum horfast í augu af eilífum fjandskap. Við höfðum leigt lítið garðhýsi hjá fullorðinni konu sem bjó næst ströndinni í Newport, dágóðan spöl norður af miðborginni. Þetta var í fyrsta sinn sem ég leit Ástralíu augum í dagsbirtu og fljótlega fékk ég staðfestingu á að við værum á suðurhveli; ekki var um villst að sólin gekk í "vitlausa" átt. Brátt yrði hún beint í norður og komið hádegi.

sydney_newport_947581.jpg

Þó svo að heldur væri hráslagalegt þennan ágústdag létum við það ekki aftra okkur frá því að tölta yfir götuna og niður að sjó. Við trúðum vart eigin augum þegar við sáum breiða gula sandströndina; þetta var betra en í nokkrum glansmynda-sólarlandabæklingi. Skór og sokkar flugu sína leið og tærnar fengu fyrstu kynni af öldum Kyrrahafsins. Ströndin var auð, enda sjórinn í svalara lagi og vart baðstrandarveður. Íslensku kuldaskræfurnar frá hitaveituborginni Reykjavík drifu í að finna íþróttavöruverslun og fá sér blautbúninga, og að því búnu var hægt að skella sér af alvöru í öldurótið. Guðrún Diljá, sjö mánaða dóttir okkar, lét sér aftur á móti nægja að sitja í makindum á ströndinni og bryðja sand milli allra fjögurra tannanna.

Við sáum fram á sannkallað sældarlíf næstu mánuðina. Þegar ég kæmi heim af skrifstofunni síðdegis myndi ég skokka beint niður á strönd þar sem þær mæðgur hefðu flatmagað lungann úr deginum. Það kom þó örlítill efasvipur á sólþyrsta Íslendingana þegar gengið var fram á hákarlsunga, sem lá hálfkafnaður í fjöruborðinu. Þrátt fyrir að vera ekki nema rúmt fet að lengd gaf tanngarðurinn svo sannarlega tilefni til að semja strax frið við ættingjana. Með skilaboðum um ævarandi fóstbræðralag var "litla krílinu" gefið líf og var hann fljótur að láta sig hverfa í hafið (vonandi fullur þakklætis). Strandlífið var byrjað. 

 

Hin myrka arfleifð

australia_first_fleet-1788.jpg
Það liðu tæpir tveir áratugir frá uppgötvun kapteins Cook þar til Evrópumenn tóku að setjast að þar sem nú er Sydney. Breska stjórnin ákvað loks að nýta þetta land til að létta af fangelsunum heima fyrir og stofna fanganýlendu í Ástralíu. Það var snemma árs 1788 að fyrstu fangaskipin komu á leiðarenda og sigldu inn Port Jackson, sem reyndist mun betra hafnarstæði en Botany Bay. Um borð voru tæplega 1500 manns og þar af 760 fangar; karlmenn, konur og börn! Óbótamennirnir höfðu margvíslega glæpi á samviskunni; allt frá vasaklútahnupli til manndrápa.
 
Næstu mánuðina lá við hungursneyð í þessu nýja samfélagi manna, sökum þess hversu jarðvegurinn reyndist erfiður til landbúnaðar. En fljótlega fundust frjósamari svæði lengra upp með Parramatta ánni, sem rennur til sjávar við höfnina. Ekki leið á löngu þar til farið var að huga að frekara landnámi í Ástralíu og fyrstu frjálsu landnemarnir komu þangað 1793. Lengi vel voru Ástralir þó þekktir fyrir ofbeldiskennt karlmannasamfélag sitt og gullæðið upp úr 1850 varð ekki til að róa mannlífið.
 

Einn refsifanganna í Ástralíu er Íslendingum að góðu kunnur. Eftir misheppnað valdarán sitt á Íslandi 1809 var Jörundur "hundadagakonungur" sendur með fangaskipi til áströlsku eyjarinnar Tasmaníu. Þar náði hann að vinna sig í áliti meðal breskra yfirvalda og stýrði nokkrum leiðöngrum um óþekkta og torfæra hluta eyjarinnar á þriðja áratug 19. aldar. Hann lést í Tasmaníu árið 1841. Á milli þess sem Jörundur vann afrek sem landkönnuður tók hann vafalítið þátt í helstu "íþrótt" breska heimsveldisins á þessum slóðum, sem var þjóðarmorð á frumbyggjum.

trugannini_1866.jpg

Það var árið 1803 sem Bretar stofnuðu til fanganýlendu á hinni afskekktu Tasmaníu. Tasmaníueyja er u.þ.b. 68 þúsund ferkílómetrar að stærð og liggur um 200 km suður af meginlandi Ástralíu. Þá bjuggu þar allt að 5 þúsund frumbyggjar og voru þeir náskyldir Ástralíufrumbyggjum. Fljótlega var byrjað að ofsækja hina innfæddu, misþyrma þeim og myrða. Fyrstu kynni þeirra af Evrópumönnum gáfu þó ekki tilefni til ótta. Árið 1802 hafði franski dýrafræðingurinn Francois Peron átt vinsamleg samskipti við Tasmaníufrumbyggja og hreifst hann mjög af hjálpsemi og gjafmildi þessa fátæka fólks. Aðeins ári síðar voru Bretar byrjaðir að limlesta innfædda sér til gamans, en þeir brugðust til varnar svo til átaka kom. Menn hlutu peningaverðlaun fyrir hvert frumbyggjahöfuð; 5 pund fyrir fullorðna en 2 pund fyrir börn, og vinsælt var að gera "krans" úr höfðum karla og hengja hann um háls kvennanna.

Árið 1847 voru einungis 47 frumbyggjanna í Tasmaníu á lífi. Þeir voru fluttir á smáeyju norður af Tasmaníu, sem kennd er við einn merkasta landkönnuð Breta; Matthew Flinders. Síðasti Tasmaníumaðurinn, kona að nafni Truganini, lést á Flinderseyju 1876 og er vart hægt að hugsa sér einmanalegri örlög. Þrátt fyrir ofbeldi og grimmd Breta í fanganýlendunni hefur það eflaust einnig flýtt fyrir útrýmingu frumbyggja Tasmaníu að margir þeirra létust úr sjúkdómum sem Evrópumenn báru með sér, t.d. berklum, mislingum og sýfilis. 

 

Á Norðurströndum

Mér var hætt að verða um sel. Brimbrettið skaust nokkra metra upp í loftið eins og korktappi og hvarf í brimgarðinn. Himinháar öldurnar kaffærðu mig hvað eftir annað og ég hentist til eins og laufblað í stormi. En sjávargoðin virtust skynja að ekki væri ávinningur í þessum hortitt auk þess sem það væri illa gert að taka hann frá nýfæddu barni og ungri konu, sem stóð áhyggjufull uppi á ströndinni. Ofsafengnar öldurnar báru mig seint og um síðir á rólegri sjó og við illan leik tókst mér að komast nær landi og...loks að finna sandbotninn undir stórutánum.
 

Þrátt fyrir rólega ásýnd geta strendurnar við Sydney verið mjög varasamar vegna brims og sterkra strauma og sérstök ástæða er fyrir óvana að fara varlega. Strandlengjan er all vogskorin og flóar og víkur skapa glæsilega umgjörð fyrir borgina. Sydney er stærsta borg Ástralíu með um 4 milljónir íbúa og því er augljóst að þekktustu strendurnar næst miðbænum, t.d. Bondi-beach, eru ekki mjög fýsilegar fyrir þá sem kjósa fámenni, hreinan sand og tæran sjó. En þegar komið er í strandúthverfin blasir Suður-Kyrrahafið við í allri sinni dýrð. Hver víkin tekur við af annarri með friðsælum sandströndum en á milli eru lág klettabelti.

sydney_manly_947585.jpg

Þetta svæði kallast Norðurstrandir (Northern Beaches) og sá sem kynnst hefur þeim missir fljótt áhugann á troðnum sandbleðlunum við Miðjarðarhafið. Að undanskildu hásumrinu er yfirleitt fámennt í fjörunni og á virkum degi getur maður nánast haft heilu strendurnar fyrir sjálfan sig. Besti hluti Norðurstranda er tvímælalaust á alllöngum en mjóum tanga eða skaga, sem teygir sig norður frá miðborginni. Að austanverðu er sjálft Kyrrahafið en vesturströnd skagans liggur að flóa sem nefnist Pittwater. Nyrst er Pálmaströndin (Palm Beach) þar sem milljónamæringar eins og Nicole Kidman, stolt áströlsku þjóðarinnar, og karl hennar Tom Cruise eiga sér athvarf. Suður af Pálmaströndinni liggur uppaströndin Avalon Beach, þá kemur hin þrönga og straumharða Bilgola-vík, svo Newport Beach (ströndin okkar), þá Mona Vale og svo hver víkin af annarri alla leið suður til Manly. Avalonströndin er vinsæll tökustaður fyrir sjónvarpssápurnar sem Ástralir framleiða á færibandi og meðan á dvöl okkar stóð var sjálfur sundskýlukonungurinn David Hasselhoff (Mitch) mættur á Avalonströndina til að skjóta Strandvarðaþætti undir heitinu "Baywatch Down Under". Ég sat um hann í von um eiginhandaráritun eða jafnvel statistahlutverk sem sundmaður í nauð, en án árangurs.

Þó svo að sólin og ströndin í Newport væru til þess fallin að vera ávallt í góðu skapi gat baráttan við "húsdýrin" gert manni gramt í geði. Þar fór Kakkalakki hershöfðingi fremstur í flokki ásamt myndarlegri hjörð sinni og helsti vígvöllurinn var eldhúsið. Einnig gátu ástarleikir pokadýranna í þakskegginu um miðjar nætur valdið andvökum og pirringi. Þau nefnast "possoms" og birtast í trjánum eða á símalínum eftir að kvöldmyrkrið skellur á og sníkja gjarnan matarafganga af kvöldverðarborðinu. Þetta eru bangsaleg dýr á stærð við ketti og eru með þykkan brúnan feld og stór augu. Geðþekkustu kvikindi en ástarlíf þeirra mætti vera kyrrlátara. Í garðinum bjó einnig annað pokadýr sem kallast "bandicoot" og er þetta e.k. pokarotta með langt og mjótt trýni. Sú var heldur feimnari en "possomin", en gat þó ekki stillt sig um að gera sig sæta og sníkja bita þegar við borðuðum útí garði á kvöldin.

 

Hákarlaslóðir við Manly

Skömmu fyrir jólin dvöldum við um skeið í Manly til að vera nær miðborginni og fá smjörþefinn af fjölbreyttu mannlífi Sydney. Þá var hitastigið, og þó fyrst og fremst rakastigið, heldur betur farið að hækka. Sjálft sumarið á Sydney-svæðinu er engan veginn rétti tíminn til að sækja borgina heim því þá verður loftið afar rakt og þrúgandi. Svækjan verkaði greinilega betur á kakkalakkana en Íslendingana og bera fór á tilhlökkun að komast heim á klakann fyrir hátíðarnar. Í Newport fitjuðu menn upp á trýnið þegar við fluttum okkur til Manly; staðurinn var sagður "very busy" - mjög erilsamur og "terribly expensive" - hræðilega dýr. Það reyndist orðum aukið, a.m.k. þegar íslenskar eyðsluklær voru annars vegar.
 
Þrátt fyrir að vera í næsta nágrenni við miðborg Sydney er Manly í raun lítill bær fremur en úthverfi. Upplagt er að taka ferjuna þangað frá gömlu höfninni, en siglingaleiðin liggur um sundin utan við miðborgina og hvergi fær maður fallegri útsýn til borgarinnar. Í Manly er mikið af veitingahúsum, börum, skemmtistöðum og kaffihúsum og ungt fólk sækir mjög á þessar slóðir. Það var líka mikill kostur að við Manly er að finna litla skjólsæla vík (Shelly Beach eða Skeljavík) þar sem Guðrún litla Diljá gat buslað í flæðarmálinu og svamlað um með foreldrunum. Í staðinn varð hinsvegar að hvíla brimbrettið.
 
port_jackson_shark_1.jpg

Utan við flestar baðstrendur Sydneyborgar hafa lengi verið lögð sérstök net til að verjast ágangi hákarla, sem eru talsvert algengir á þessum slóðum. Vegna umhverfisverndarsjónarmiða hefur þess konar netum verið fækkað mjög enda drepast bæði skjaldbökur og höfrungar í þeim. Sem fyrr eru hákarlarnir þó afar óvelkomnir strandgestir en mjög sjaldgæft er að þeir ráðist á fólk.

Ég fékk reyndar nasasjón af nokkrum hákörlum snemma um vorið (síðla í september). Sænskættaður starfsfélagi minn vissi af stað út af Skeljavík þar sem s.k. "Port Jackson"-hákarlar safnast saman um fengitímann. Tækifærið var gripið einn góðan veðurdag til að líta herlegheitin augum og syntum við útí víkina. Og viti menn; þarna á um 6 metra dýpi voru þrjú kvikindi á sveimi. Þeir voru u.þ.b. mannslengd og lágu nánast hreyfingarlausir á botninum. Að vísu er þessi tegund hákarla hálfgerðir svindlhákarlar, sökum þess að þeir eru tannlausir! Engu að síðar eiga þeir það til að japla á sundfólki en viðkomandi sleppur oftast með slæman marblett á handlegg eða kálfa. Í okkar tilviki höfðu hákarlarnir engan áhuga á þessum ógeðfelldu homo sapiens.

 

Í nafni réttlætisins

Vera mín í Sydney fólst þó ekki bara í hákarlaskoðun og sjóbusli. Tilefni ferðarinnar var boð frá Department of Land and Water Conservation (DLWC) um að koma og öðlast starfsreynslu við eftirlit og framfylgd á nýrri og framsækinni gróðurverndarlöggjöf. DLWC er sjálfstætt ráðuneyti í Nýju Suður-Wales og fer með ýmis verkefni sem hér á landi heyra undir umhverfisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Hjá DLWC vann ég við að fara yfir mál sem bárust frá héraðsskrifstofunum úti á landi um meint brot gegn gróðurverndarlöggjöfinni og undirbjó ákærur.
 
australia_salinity.jpg
Ástralir standa frammi fyrir gífurlega umfangsmikilli gróðureyðingu af manna völdum og er nýju lögunum ætlað að sporna við þeirri þróun. Ástæða vandans er fyrst og fremst sú að trjám og kjarri er rutt af landi og því breytt í akuryrkjuland, þó svo að oft henti landið betur til annarra nota, t.d. hóflegrar búfjárbeitar. Þegar til þess kemur að mál fer fyrir dóm er ráðinn sjálfstætt starfandi lögmaður (barrister) til að flytja málið, en starfsfólk DLWC er honum til liðsinnis. Gervitunglum og nýjustu tölvutækni er beitt til að afla sönnunargagna um gróðurfar og landnýtingu, en torvelt getur verið að sanna að brotið hafi verið gegn lagaákvæðum um vistfræðilega sjálfbæra landnýtingu (ecologically sustainable land use). Mjög strangt er tekið á því ef farið hefur verið útí framkvæmdir eða aðrar aðgerðir sem valda gróðurspjöllum, án þess að afla fyrst tilskilinna leyfa og eiga hinir brotlegu yfir höfði sér þungar fjársektir; oft jafngildi nokkurra milljóna ísl. króna.
 
Málin eru rekin fyrir sérdómstóli í Sydney, sem nefnist Land and Environment Court, en unnt er að skjóta dómum hans til Hæstaréttar fylkisins (New South Wales Supreme Court). Málflutningur í hverju máli tók almennt 3-4 daga og fór mestur tíminn í vitnaleiðslur og karp hárkolluskreyttra lögmannanna um það hvað skyldi fært til bókar og hvort ný sönnunargögn fengjust lögð fram. Gera þurfti réttarhlé til að menn gætu fylgst með nágrannaslagnum við Ný-Sjálendinga í "brussubolta" (Australian football - svipar mjög til rugby), en þessi ófágaða knattspyrna er sú íþrótt sem þjóðirnar tvær eru hvað helteknastar af. Þó réttarhöldin reyndust nokkuð langt frá því réttardrama-tempói sem við fáum svo oft að sjá í amerískum bíómyndum lak svitinn í stríðum straumi undan gulum hrosshárskollunum og niður á bleika svíra lögmannanna. Mig dauðlangaði í eina svona kollu, helst með tveimur fléttum; það myndi áreiðanlega virka vel í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

 

Borgarlíf

Það er ekki orðum aukið að eina rétta leiðin til Sydney sé frá sjó. Þegar við tókum ferjuna frá Manly og sigldum í átt að miðbænum varð ekki hjá því komist að viðurkenna að borgarstæði Sydney er afar fallegt. Þegar komið er í land við Circular Quay er upplagt að tylla sér við einn ostrubarinn við höfnina og fá sér eins og tylft af hráum gómsætum ostrum og skola þeim niður með ísköldu áströlsku hvítvíni.
 
sdney_operuhusid.jpg
Eftir hressinguna má rölta að hinu sögufræga Óperuhúsi og skoða það að utan sem innan. Vilji menn heldur njóta útivistar og veðurblíðu er upplagt að ganga nokkur hundruð metrum lengra og slappa af í forsælunni í Grasagarðinum (Botanic Gardens), sem er eins og vin í miðborgarhávaðanum. Þar áttum við ánægjulegar stundir undir risavöxnum trjánum og sóttum m.a. "miðsumartónleika" í desember. Áheyrendurnir lágu í grasinu með nesti sitt undir sinfóníuleik hljóðfæraleikara, sem voru uppábúnir að sið Vínaraðalsins á tímum Mozart og Guðrún Diljá sat og dillaði höfðinu í takt við tónlistina. Við sólarlag komu flokkar af skrækjandi leðurblökum fljúgandi heim, hengdu sig neðan á trjágreinarnar og störðu á mannfólkið fyrir neðan sig supplandi kampavín í friðsælli náttúrunni. Þrátt fyrir að vera heldur ófrýnilegar eru þær hin bestu skinn og lifa eingöngu á ávöxtum og hafa því aðrar matarvenjur en frænkur þeirra blóðsugurnar. Engu að síður þótti mér tryggara að hafa hvítlauk við höndina.
 

Samsetning áströlsku þjóðarinnar hefur breyst mikið síðasta aldarfjórðunginn. Lengi vel var einungis Bretum og N-Evrópumönnum heimilað að setjast að í Ástralíu og það var ekki fyrr en 1966 að vikið var frá stefnunni um "hvíta þjóð" (white Australia policy). Á síðari árum er það ekki litarháttur manna sem ræður því hverjir fá innflytjendaleyfi, heldur fyrst og fremst góð menntun og heilsa og fjárhagslegt sjálfstæði. Fyrir vikið er t.d. mikið um að Japanir og fólk frá Hong Kong setjist að í landinu við heldur lítinn fögnuð ýmissa góðborgara sem rekja sig til afbrotamanna frá hinu eina sanna Stóra-Bretlandi. Einnig er nú að finna heilu hverfin þar sem býr fólk frá löndum eins og Indlandi, Líbanon og Grikklandi. En þrátt fyrir fjölbreytt mannlíf eru engilsaxnesk áhrif enn mjög ríkjandi í Sydney.

Ferðamenn sem sækja Sydney heim eru að langmestu leyti Japanir og Ameríkanar og raunar má segja að gamla borgarstæðið (the Rocks) hafi verið "hernumið" af japönsku ferðafólki, sem tiplar eftir öngstrætunum vopnað myndbandsupptökutækjum og eyðir hýrunni í ástralska eldópala og leðurvörur úr kengúru- eða krókódílaskinni. Sydney er mikil verslunarborg og sjálfsagt fyrir kaupglaða Mörlanda að fá þar smá útrás. Betri fatnaðinn má t.d. nálgast í verslunarmiðstöðvunum David Jones eða Chifley Tower, en umfram allt ber að skoða Viktoríu-verslunarklasann (Queen Victoria Building eða QVB). Sjálf byggingin er frá 1813 og hýsti lengi ávaxta- og grænmetismarkað borgarinnar. Árið 1986 var lokið við að gera þessa glæsibyggingu upp og er fallegra verslunarumhverfi vandfundið.

australia_tom_roberts.jpg

Eftir kaupgleðina er upplagt að lífga örlítið upp á andlegu hliðina og fara í helsta listasafn borgarinnar, New South Wales Art Gallery, þar sem frumbyggjalist og "gömlu meistarana" ber hæst. Láti fólk sér ekki nægja kyrrlátari hliðar mannlífsins er rétt að stefna á Paddington, sem er hverfi skammt sunnan miðbæjarins með fallegum byggingum og fjölskrúðugu mannlífi; allt frá teprulegum kennslukonutýpum til kafloðinna vaxtarræktartrölla á lífstykki einu saman. Þegar kvölda tekur halda þeir sem leita villtra skemmtana til Kings Cross, en við fengum að vísu enga reynslu af "fjörinu" þar. 

Eins og vera ber þegar maður er ráðvilltur gestur frá hinum endimörkum jarðarinnar lentum við í ýmsum smáhremmingum. Sérkennilegasta uppákoman af því tagi var þó þegar minnstu munaði að við fengjum ekki að yfirgefa borgina (landið). "Iceland" fannst nefnilega ekki í tölvukerfi alþjóðaflugvallarins í Sydney og starfsfólkið kannaðist alls ekki við neitt land með þessu kuldalega heiti og hafði á orði að vegabréf okkar hlytu að vera úr Cheeriospakka. Og það þótt Ísland hefði undanfarna mánuði verið mjög áberandi í fjölmiðlunum; "Börn náttúrunnar" og "Cold Fever" í sjónvarpinu, stórt viðtal við Björk í sunnudagsblaðinu, lýsingar á drykkjusiðum og hömlulausu skemmtanalífi Íslendinga í öðru sunnudagsblaði, Reykjavík nefnd í tískuþætti í sjónvarpinu sem "heitasti staðurinn" ásamt New York og Sydney o.s.frv. (allt þetta venjulega þvaður sem fær Frónbúahjörtun til að slá örar; a.m.k. mitt!).

Ég maldaði því í móinn við innritunarborðið og muldraði eitthvað um "Scandinavia" og "close to Greenland - the North Pole you know", en án árangurs. Loks þegar við vorum farin að sætta okkur við að setjast að í einhverri víkinni á Norðurströndum fannst ákvörðunarstaðurinn "Republic of Keflavík". Með semingi féllumst við á að vera send þangað; það hlutu að verða einhver ráð með að komast frá því bananalýðveldi og heim til Íslands.

 


Kiev

Kiev í febrúar er engin Pardís á Jörðu. Svo mikið er víst.

Borgin var óhemju grá og fólkið ennþá grárra. Ekkert að sjá af glæsileiknum sem maður upplifði í Moskvu; hvorki í hráum byggingum né í þreytulegu fólkinu. Enda mun Kiev nánast hafa verið gjöreytt í stríðinu og eftirstríðsarkitektúr kommúnismans ekki beint sá fallegasti. Íbúarnir í dag eru þjakaðir af kreppu og eflaust ekki til að bæta ástandið að í gegnum borgina rennur hágeislavirkt fljót sléttunar; Dnépr eða Dnieper.

Mikhail_Bulgakov_1En Úkraínumenn reyndust indælisfólk. Miklu þægilegri í viðmóti en Rússarnir í Moskvu. Ég hafði lítinn frítíma í þessari ferð, en þó einn eftermiddag. Hann notaði ég auðvitað til að leita uppi íbúðina þar sem Mikhail Bulgakov  er sagður hafa búið í með fjölskyldu sinni, áður en hann fluttist til Kákasus og síðar Moskvu.

Í dag er Mikhail Bulgakov einhver ástsælasti sonur Úkraínu og gott ef hann skrifaði ekki hluta af Meistaranum og Margarítu einmitt þarna í kuldalegu íbúðinni við Andreyevsky Spusk. Þar er nú safn með ýmsum persónulegum munum sem sagðir eru vera frá Búlgakov-fjölskyldunni. Samt tókst mér reyndar ekki að komast að því með fullri vissu hvort þetta sé í reynd íbúðin sem Búlgakovarnir bjuggu í - eða bara safn sem á að sína sambærileg húsakynni Búlgakov-fjölskyldunnar í Kiev.

Hef þó lesið einhvers staðar að þarna hafi Búlgakov ekki aðeins búið með foreldrum sínum og systkinum frá árinu 1906, heldur einnig haft læknastofu sína í húsinu. Líst vel á ef það er satt. Þá höfum við ég og Búlgakov gengið um sömu gólffjalirnar og sömu dyrastafina.

Meistarinn_og_MargaritaÞað er auðvitað algerlega ófyrirgefanlegt að ég skuli ekki hafa nefnt Búlgakov og Meistarann og Margarítu eða Örlagaeggin, hér í síðustu færslu. Hvar ég minntist á uppáhaldsrithöfundana mína. Auðvitað er Búlgakov sá albesti. Og þó sértsaklega sagan yndislega, þegar sjálfur Djöfullinn heimsækir Moskvu. Einfaldlega dásamleg bók, auk þess sem ég hef grun um að þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur geri þetta listaverk jafnvel enn betra en það er á frummálinu.

Mér hefur alltaf þótt það svolítið táknrænt - eða a.m.k. skemmtilegt -að árið sem Meistarinn og Margaríta var loks gefin út, var einmitt 1966. Fæðingarárið mitt. Og sökum þess að þetta er eitthvert frábærasta skáldverk sem ég hef nokkru sinni lesið, notaði ég tækifærið í Kiev að fara á slóðir Búlgakov's .

Þetta var einhver alfurðulegasta heimsókn á safn sem ég hef lent í. Maður kemur inní litla afgreiðslu og kaupir þar aðgöngumiða hjá spikfeitri kerlingu handan við lítið op eða lúgu. Eins og var í íslenskum félagsheimilum hér í Den, hvar sjoppan var þegar samkundur voru haldnar. Er svo sagt - eða öllu heldur skipað - að bíða (Wait Hír!).

Eftir dágóða stund birtist miðaldra kona, alúðleg á svip og vísaði mér upp lúna timburstigann. Þangað komið birtust fyrstu íveruherbergin með afskaplega fáum innanstokksmunum en nokkrum gömlum myndum af fólki úr Búlgakov-fjölskyldunni á veggjunum.

Bulgakov_wife_Tatiana Nikolaevna LappaDyrnar inn í næsta herbergi voru lokaðar. Eftir að hafa haldið yfir mér ítarlega ræðu á úkraínsku og bent hingað og þangað um herbergið, gekk konan að lokuðum dyrum og lagðist á skráargatið. Setti svo fingur á varir sér og gaf mér merki um að bíða. Kraup svo aftur við hurðina, kíkti í gegnum skráargatið á ný, stóð upp, opnaði og vísaði mér inn í næsta herbergi.

Svona gekk þetta í hverju herbergi og þau voru satt að segja all mörg. Ég fattaði fljótlega að á undan mér var annar safngestur, sem fékk líka svona prýðilega persónulega þjónustu og ætlast var til þess að ekki kæmi annar inn fyrr en hinn fyrri væri kominn í næsta herbergi og búið að loka á eftir honum.

Þetta var allt hið furðulegasta og ég varð hreinlega hálf ringlaður af öllu saman. Var farinn að leggja eyra á hurðina með leiðsögumanni mínum og fékk líka að kíkja gegnum skráargat. Þetta var orðinn skemmtilegur leikur eins og í kjallaranum austur á Klaustri hér í gamla daga. Ég komst allur í stuð og hafði gaman af þessari sérkennilegu safnaskoðun. Sú úkraínska og ég áttum líka hrókasamræður um Búlgakov. Þar sem hún mælti á móðurmáli sínu og ég á íslensku og kinkuðum bæði ákaft kolli. Einhvern veginn var eins og við skildum hvort annað prýðileg.

Master_and_MargaritaLoks var hringferðinni lokið, ég búinn að grandskoða ófáar ljósmyndir af systrum Búlgakov's, strjúka yfir rúmfötin hans (sic) og skoða bollastellin. Hlóð þjórfé á þessa ágætu konu, sem hafði verið leiðsögumaður minn og kunni ekki stakt orð í ensku. Og stakk mér svo útí gráa og geislavirka rigninguna. Rölti niður eftir Andreyevsky Spusk og niður að Dnépr. Stóð andaktugur og horfði á fljótið streyma lygnt fyrir fótum mér. Fullt af banvænni geislavirkni frá Chernobyl, sem er einungis um eitt hundrað km norður af Kiev. Ég var afskaplega ánægður með að hafa drifið mig á safn Búlgakov's. Og hlakkaði líka til að koma heim í kolsvart Þorramyrkrið á Keflavíkurflugvelli.

Kannski fer ég aftur til Kiev. En þá ætla ég að fara um vor. Þó svo Dnépr sé jafn geislavirk líka á þeim tíma. Kannski kemst ég alla leið til Odessa og get þá rifjað upp hina stórkostlegu mynd; Beitiskipið Pótemkín. Ég er strax farinn að hlakka til.

 


Paul Theroux

"Hver er uppáhaldsbíómyndin þín?"

Spurningar af þessu tagi eru algengar í ákveðinni tegund af viðtölum. Og er þá ekki aðeins spurt um kvikmyndir, heldur t.d. líka hver sé flottasti bíllinn eða besta bókin sem viðkomandi hafi séð og lesið.

Verold_sem-varSjálfum er mér ómögulegt að tilgreina hver sé "bestur". Ég hef séð margar góðar kvikmyndir. Og lesið fjöldann allan af góðum bókum. En með því að taka svona spurningar ekki of hátíðlega og beita einhverri rökréttri aðferð má hugsanlega finna svar. Hreinskilið svar. Ég held ég myndi þá tilgreina kvikmyndina Apocalypse Now. Þar á eftir kæmi svo runa af góðum myndum. Sem ég ætla ekki að fara útí hér.

Það er erfiðara að nefna eina bók. Það myndi jafnvel reynast mér erfitt að tilnefna uppáhaldsrithöfund. Freistandi að nefna einhvern sem mér líkar ákaflega vel við og þykir "fínn" pappír. Viðurkenndur af bókmenntaelítunni. Ég er t.d. mjög sáttur við bækur Stefan's Zweig. Og Vilhelm's Moberg. Og Milan Kundera. Og Erskine Caldwell. Svo virðist að ég sé mest fyrir að lesa verka látinna karla!

Ef ég ætti að nefna eina bók eftir einhvern þessara höfunda er það tvímælalaust Veröld sem var, sem kemur fyrst upp í hugann. Og Manntafl. Og Ódauðleikinn. Og Dagslátta drottins. Og Stund þín á jörðu.

En enginn af þessum snillingum er samt uppáhaldsrithöfundurinn minn. Eftir nokkra yfirlegu hef ég komist að niðurstöðu. Hann er meira að segja á lífi. Og heitir Paul Theroux.

Theroux_Paul-todayPaul Theroux er svo sannarlega talsvert langt frá því að vera einn af bestu núlifandi rithöfundur heims. Sumar skáldsögurnar hans, sérstaklega af þeim nýjustu, eru hreint ótrúlega lélegar. En margar hinnar eldri þykja mér brilljant. Það eru þó ferðsögubækurnar hans sem valda því að hann er uppáhaldið mitt. Núna er ég einmitt að lesa þá nýjustu; Ghost Train to the Eastern Star.

Er bara tæplega hálfnaður en tel mig þó strax geta fullyrt að hún muni ekki skilja mikið eftir sig. Theroux hefur sem sagt oft verið betri. Samt skondið að sjá hversu dregið hefur úr pirringnum hjá Paul. Það er einhvern veginn eins og hann sé loksins orðinn sæmilega sáttur við lífið og samferðarmenn sína. Ég hlakka líka til að lesa The Dead Hand, sem er nýjasta skáldsagan hans og var að koma út í Bretlandi fyrir rétt um mánuði síðan. Ferðasögubækurnar hans eru samt rjóminn, enda er ég löngu orðinn svolítið leiður á fiction!

Frægasta verk Paul Theroux er líklega Moskító-ströndin eða The Mosquito Coast, frá árinu 1982. Sú frægð stafar auðvitað ekki síst af kvikmyndinni sem eftir henni var gerð, með stjörnunni Harrison Ford, ungum River Phoenix og fleiri stórgóðum leikurum. Myndin sú er frá 1986 og var leikstýrt af ástralska snillingnum Peter Weir. 

Mosquito_Coast_Harrison_FordÍ þá daga tengdi ég þó þessa mynd ekki hið minnsta við Paul Theroux. Því ég hafði eldrei heyrt hann nefndan og var bara að fara á einhverja Harrison-Ford-mynd á hefðbundnu bíókvöldi. Það var ekki fyrr en haustið 1991, þegar ég heimsótti Ásgeir bekkjabróður minn úr lögfræðinni til Lundúna, að ég komst í kynni við Theroux.

Ásgeir, sem nú er aðstoðarforstjóri Samkeppnieftirlitsins, var þá í framhaldsnámi í Evrópurétti við LSE. Við höfðum útskrifast úr Lagadeildinni þá um vorið og trúðum held ég báðir á það að Ísland ætti endilega að komast sem fyrst inn í EB. Það átti eftir að dragast á langinn, sem kunnugt er.

Sjálfur fór ég að vinna í hálf leiðinlegu innheimtudjobbi hjá VÍS, en hann hélt um haustið til London. Ég notaði auðvitað tækifærið til að heimsækja Ásgeir og sjá þessa frægu borg í fyrsta sinn. Þar lá ég á gólfinu hjá Ásgeiri í holunni á horni Tottenham Court Road og Euston, beint yfir Warren Court neðanjarðarlestastöðinni.

Þetta var mikil stuðhelgi. Það besta var þó að við skyldum rölta við í "Stúdentakjallaranum" og gramsa þar svolítið í gömlum bókum, sem voru þar til sölu á slikk. Ásgeir benti mér á eina sem hann sagði vera eftir höfund sem ég myndi örugglega fíla. Þetta var velkt pappírskilja og titillinn var The Consul's File. Ég gaf líklega einhver tvö pund fyrir og the rest is history. Það var eitthvað við þessa bók sem náði tökum á mér. Það leiddi fljótlega til þess að ég las fleiri af skáldsögum Theroux og líka Lestarferðabækurnar hans.

riding_the_iron_roosterOg ég held satt að segja að þessar prýðilegu bækur Paul Theroux hafi mótað lífsviðhorf mitt verulega. Ég hef a.m.k. notið þeirra mjög. Og hugsa alltaf með þakklæti til Ásgeirs þegar ég byrja á nýrri bók eftir Theroux. Og svo ég leyfi mér að gerast ofurlítið skáldlegur: Ég held nefnilega að þessar lestarferðir Theroux með öllu óvænta samferðarfólkinu og ófyrirséðu atburðunum framundan séu alveg upplagðar til að minna mann á að vera ekki að reyna að skipuleggja líf sitt um of. Og njóta þess meðan er.

 


Hafþór

Ég var niðrí geymslu að gramsa. Og fann þar nokkur gömul umslög, stíluð á "yngispilt Ketil Sigurjónsson".

Utanáskriftin var bersýnilega ekki rithönd Hafþórs. Heldur væntanlega Elsu, mömmu hans. Bréfin eru aftur á móti skrifuð af honum sjálfum, af mikilli vandvirkni. Þessi bréf eru frá vetrinum 1975-76 þegar ég bjó í Danmörku. Þangað flutti ég með pabba, mömmu og Æsu til ársdvalar síðsumars 1975; rétt fyrir 9 ára afmælisdaginn. Og þá flutti líka Hafþór frá Klaustri og hélt með mömmu sinni í Mosfellssveit.

HafthorVið höfðum þá í einhver ár verið fjarska góðir vinir eða frá því Elsa fluttist að Klaustri og gerðist ráðskona við Kirkjubæjarskóla. Ekki héldust bréfaskiptin lengi eftir brottflutninginn, en eftir það rakst ég einstaka sinnum á Hafþór á förnum vegi. Alltaf var hann ákaflega líkur drengnum sem hafði verið svo góður félagi minn austur á Kirkjubæjarklaustri. Rólegur, yfirvegaður og glaðlyndur í senn. Enda held ég að öllum á Klaustri hafi líkað ákaflega vel við snáðann.

Sérstaklega var foreldrum mínum hlýtt til Hafþórs. Sjálfur var ég alltaf morgunsvæfur krakki, en Hafþór aftur á móti árrisull með afbrigðum og birtist oft heima um það leiti sem pabbi vaknaði. Væri pabbi ekki þegar byrjaður á morgunrakstrinum kom fyrir að Hafþór settist til fóta í bólinu hjá foreldrum mínum og kjaftaði þá á honum hver tuska. Gott ef ég fann ekki stundum til smá afbrýðissemi yfir því hversu hlýlega þau töluðu oft um hann og höfðu óskaplega gaman af þessum glaðlynda morgunhana.

En oftast vorum við miklir mátar, enda á þeim dásamlega aldri þegar hver dagur er nýtt ævintýri og lífið áhyggjulaus og skemmtilegur leikur. Og þó svo ég hafi lítið haft af Hafþóri að segja síðustu þrjá áratugina og einungis hitt hann sárasjaldan, varð mér afar hverft við þegar ég frétti af því að hann hefði látist í flugslysi.

Hafthor_Air_Atlanta_planeÞað var skrítin tilfinning að hjóla Skerjafjarðarstíginn meðfram Reykjavíkurflugvelli í dag og horfa á rellurnar koma inn til lendingar. Sjálfur lærði ég að fljúga um tvítugt og kom þá einstöku sinnum fyrir að ég rækist á Hafþór niður á velli. Hann var þá þegar orðinn reyndur einkaflugmaður og á fullu í flugkennslu. Að sjálfsögðu fylgdist ég svo af aðdáun með því hvernig Hafþór byggði upp Air Atlanta í samstarfi við þau Arngrím Jóhannsson og Þóru þáverandi eiginkonu hans. Ég hygg að flugið hafi hentað Hafþóri fullkomlega; hann var einmitt prýddur þeirri rósemi og yfirvegun sem einkennir bestu flugmennina. Og fyrir þann sem hefur ánægju og áhuga á flugi er varla hægt að hugsa sér skemmtilegri starfsferil en Hafþór hlaut.

En nú er hann horfinn á braut. Hann fórst í hörmulegu flugslysi norður í Vopnafirði fyrir rúmri viku síðan. Mikill er missirinn fyrir móður hans, fjölskyldu og vini. Hann skilur eftir sig eiginkonu og tvö ung börn. Lífið virðist stundum ákaflega ósanngjarnt og óskiljanlegt.

Ég held að Hafþór hafi að mörgu leyti lifað viðburðaríkara og skemmtilegra lífi en mörgum gefst. Þó það deyfi ekki sársaukann hjá ástvinum hans, er gott að geta minnst þess. Kæra Elsa; ég votta þér og fjölskyldunni innilega samúð mína.


Liverpool

Liverpool er liðið mitt. Og Liverpool vann sætan sigur á United i dag.

ray_clemence_2

Ég hef líklega verið svona 10 eða 11 ára þegar ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum í svart-hvítu hjá honum Bjarna Fel. Á laugardögunum hér í Den, þegar hann sýndi okkur ávallt einn leik frá því helgina áður. Takk fyrir þær góðu stundir, Bjarni.

Árabilið ca. 1977–1988 fylgdist ég grannt með ensku deildinni. Og hélt ætíð af ástríðu með Liverpool. Var einnig svolítið mjúkur fyrir Ipswich, sem á tímabili var með frábærlega skemmtilegt lið. En Liverpool var hið eins sanna.

Steven-Gerrard

Svo dofnaði áhuginn á boltanum. Fannst skítt hvernig peningarnir tóku völdin og stjörnurnar fóru að verða "metró" og láta eins og fífl.

Hef varla horft á nema einn og einn leik í ensku deildinni síðustu tuttugu árin. Samt hef ég auðvitað lengst af verið meðvitaður um hverjir hafa verið að gera það gott á hverjum tíma. Og hvernig gangurinn hefur verið hjá Liverpool.

Líklega átti Liverpool einmitt eitt sitt mesta blómaskeið árin sem ég var á kafi í enska boltanum. Svo urðu það stjörnurnar hjá Manchester Utd. og Chelsea sem risu hæst. Og boltinn fór yfir á Stöð 2. Mér fannst enski boltinn án Bjarna Fel aldrei alvöru.

rush_dalglish

Maður hélt auðvitað svolítið með Chelsea meðan Eiður var þar. En mér leiddist þessi nýríki Rússi hann Abramovich og allt snobbið kringum hann. Þeir ljósbláu Lundúnapiltar í Chelsea náðu a.m.k. engan veginn að skapa fiðring í brjósti bloggarans. Þessa einstöku tilfinningu sem maður finnur þegar rauðliðarnir frá Liverpool sýna snilli sína.

Það er náttlega barrrasta alveg stórfurðulegt hvernig hægt er að tengjast einhverju fótboltaliði útí heimi svona sterkum tilfinningaböndum. Það hlýtur að hafa eitthvað með það að gera, að maður kynntist liðinu strax á æskuárunum. Liðið varð partur af tilfinningaþroskanum.

Nöfn eins og Ray Clemence, Terry McDermott, Sammy Lee, Alan Hansen og Ian Rush vekja ennþá hlýju í huga bloggarans. Meira að segja Brúsi kallinn Grobbelaar vandist og fékk sinn sess í hjarta bloggsins. En sá sem skipar æðsta sess er auðvitað Kenny Dalglish. Rétt eins og þegar ég hugsa til góðu, gulu Tonka-gröfunnar sem ég átti sem smápatti. Og gat leikið mér hreint endalaust að. Góð minning sem aldrei gleymist.

Orson_Welles_1

Tonka! Þar var sko ekkert plastrusl á ferðinni, eins og í vesælum nútímanum. Heldur ekta amerískt stál. Þegar ég hugsa til gröfunnar góðu, dettur mér alltaf í hug atriðið úr Citizen Kane. Þegar deyjandi milljarðamæringurinn andvarpar sína síðustu hugsun; "Rosebud". Sem reynist vera sleðinn, sem hann renndi sér á í snjónum sem stubbur. Algert snilldaratriði hjá meistaranum Orson Welles.

Stund okkar á jörðu er stutt. Og stundum gott að hugleiða hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Hvað er það sem situr eftir í endurminningunni þegar upp er staðið? Auðvitað fyrst og fremst atburðir tengdir börnum og ástvinum. Í mínu tilviki ótalmargar skemmtilegar og góðar stundir með krökkunum mínum tveimur og Þórdísi minni. En líka alls konar "litlar" minningar, sem í reynd eru svo óumræðilega hlýjar.


Brýr!

golden-gate-bridge

Brýr eru snilld. Þess vegna er ég alltaf að vona að þessi leiðindagöng verði blásin af vegna Sundabrautar. Og byggð flott brú... og dýr brú. Sem verði eitt af einkennum Reykjavíkur. Þó svo sú brú myndi kannski ekki alveg ná að jafna hafnarbrúna í Sydney eða Golden Gate í San Francisco, gæti hún orðið glæsilegt mannvirki. Menn segja reyndar að stundum yrði að loka brúnni vegna hvassviðris. Kannski rétt. En skiptir engu. Vil samt fá brú.

Hvaðan ætli þessi brúarástríða komi? Þegar ég kem að flottri brú breytist ég í pottorm. Stoppa, dáist, keyri yfir og aftur til baka. Kann mér ekki læti af tómri kæti.

Gigja

Kannski má rekja þetta til þess þegar maður lék sér með legókubbana hér í Den í gömlu stofunni austur á Klaustri. Og byggði brýr - allar upp á lengdina í anda Skeiðarárbrúar. Sem þá var að rísa austur á Skeiðarársandi. Þangað var stundum ekið með pabba og mömmu, fyrst þjóðveginn að Núpsstað og svo slóðann sem endaði við Lómagnúp. Til að fylgjast með brúarsmíðinni við Núpsvötn / Súlu og yfir Gígjukvísl (síðar nefnda brúin fór í hlaupinu 1996 eftir gosið í Gjálp).

Þetta hefur líklega verið sumarið 1973. Svo varð hægt að bruna yfir nýju glæsibrýrnar tvær, sem manni fannst nánast óendanlega skemmtilega langar. Og mæta bílum á brúnni! Eða stoppa í útskotunum og vappa eftir timburgólfi brúnna. Það var ekki leiðinlegt! Mun aldrei gleyma hljóðinu þegar græni Reinsinn rann í fyrsta sinn eftir þessu mjúka brúargólfi. Til allrar hamingju má enn heyra þetta góða nostalgiuhljóð. Ekki síst þegar ekið er eftir brúnni yfir Núpsvötn og Súlu. Nýja brúin yfir Gígjukvísl er aftur a móti með hefðbundið leiðinda steypugólf.

Skeidarárbrú_smidi

Og svo var skrönglast austur að Skeiðará og horft á vatnadrekann ösla yfir gráa og straumharða ána. Og ekki minni hrifningu ollu risastórir Scania-bílarnir að sturta hnullungum í varnargarðana. Þá var draumurinn að verða trukkabílstjóri. Sem var jafnvel enn betra en verða rútubílstjóri eða flugmaður.

Út úr bílnum. Dýfa Nokia- og hosuklæddum tánum ofaní fljótið til að finna strauminn rífa í. Og horfa á Skeiðarárbrú smám saman lengjast... og lengjast.

Breidamerkurbru

Ég bara spyr: Hver eru fallegustu mannvirki á Íslandi? Hallgrímskirkja? Perlan? Hótel Grand? Afsakið að ég skuli nefna þessa hryllingsþrennu. Nei  - auðvitað eru það brýrnar sem bera af. Gamla Þjórsárbrúin. Brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, með falinni blindhæð. Og margar gamlar smærri brýr. Og auðvitað drottningin sjálf; Skeiðarárbrú!


Friðrik Halldór Ingi

Einn af æskudraumunum var að verða flugmaður. Og auðvitað kannaði ég hvort þetta væri rétti draumurinn fyrir mig.

Cessna_152

Ég lærði að fljúga á Cessnunum hans Helga heitins Jónssonar. Þó með aðra flugkennara - og tók reyndar bóklega hlutann hjá Flugtaki. Þetta var veturinn 1985-86. Útskriftarveturinn í MH.

Það var talsvert ævintýri að læra að fljúga. Þrátt fyrir áratuga skólagöngu, lögfræðipróf, MBA, pungapróf, skellinöðrupróf og bílpróf, finnst mér ég eiginlega bara hafa tekið eitt alvörupróf. Sem er sólóprófið!

Það er afskaplega sérkennileg tilfinning að ýta bensíngjöfinni í botn og halda í loftið einn síns liðs. Í fyrsta sinn. Og svo sveima einn um loftin blá. Og lenda flugvélinni án nokkurs möguleika á aðstoð. Maður er einn um borð. Sannkallað alvörupróf. Sem líklega er vont að falla á.

Sólóprófið átti sér eiginlega engan aðdraganda. Þetta var hefðbundinn flugtími og endaði á nokkrum snertilendingum. Á braut 01. Líklega snemma i maí.

Eftir síðustu lendinguna Keyrði ég vélina inn á stæði og ætlaði að fara að drepa á hreyflinum. Þá spurði kennarinn allt í einu upp úr þurru, hvort ég vildi ekki bara skella mér í sóló? Og vinkaði bless. Ég ók af stað og fór ég aftur í loftið - einn. Tók fáeinar snertilendingar uns kom að lokalendingu. "Halldór Ingi -þetta er lokalending". Og flugumferðarstjórarnir létu sem ekkert væri. Þó svo þeir hljóti að hafa séð hversu svakaleg ein snertilendingin var. Þegar ég fór aftur í loftið eins og korktappi sem skýst úr kampavinsflösku, ennþá með flapsana niðri í 30 gráðum! Það var all svakalegt.

Sólóprófið var í höfn. Þar eru bara tveir möguleikar á einkunn. Núll eða tíu!

Reyndar varð flugið ekki það sem ég lagði fyrir mig í lífinu. Til þess var flugáhuginn ekki nægilega mikill. En þetta var bráðskemmtilegt. Sérstaklega eru mér minnisstæðar nokkrar snjóavikur snemma árs 1986. Var þá stundum talsvert verk að moka frá flugskýlinu, svo draga mætti relluna út á ísilagt planið. Svo var sett í gang og ýmsar kúnstir æfðar - oftast yfir Kapelluhrauni eða Hólmsheiði.

F15_IAF

Stundum var skotist suður á Miðnesheiði og nokkrar snertilendingar teknar á Keflavíkurflugvelli. Maður hafði reyndar á tilfinningunni að flugumferðarstjórarnir í flugturninum á Vellinum hefðu gaman af þessum heimsóknum. Líklega ágæt tilbreyting á fremur dauflegum dögum, meðan beðið var eftir síðustu Flugleiðavélunum frá Ameríku.Það var svolítið skrítin tilfinning að skríða þarna inn á "Halldóri Inga" (TF-FHI), eftir farþegaþotu frá Flugleiðum eða einni öskrandi F15 frá hernum. Þá gat Cessnan henst hressilega til í ókyrrðinni eftir þotuna. Og brautirnar í Keflavík voru eitthvað svo fáránlega langar fyrir litlu Cessnuna - maður hefði næstum getað lent þvert á braut!

Svo var stundum mikið kapphlaup - eða öllu heldur kappflug - við éljabakkana a leið aftur til Reykjavikurflugvallar. Þá gat munað mjóu, enda vélin eins og lauf í hvirfilbyl ef hún lenti inní slíku éli. En alltaf gekk þetta farsællega og aldrei lenti ég í neinum bilunum né óhöppum í flugnáminu hjá þeim Helga og Jytte.

alaska_sea_plane

Helgi var jafnan tilbúinn með komment á lendinguna, þegar maður renndi flugvélinni inná planið við flugskólann, austur undir Öskjuhlíðinni. Svo sem hvort maður hefði verið að "reyna að klippa ofan af grenitrjánum". Ef maður hafði komið helst til lágt yfir hlíðina á leið inn á braut 31. Og kímdi.

Henti svo bananakassa og appelsínum inní Mitsubishi-vélina og flaug til Kulusuk. Já - hann Helgi Jónsson er afskaplega eftirminnilegur karakter. En mér fannst stundum svolítið kuldalegt að horfa á eftir vélinni hans til Grænlands - fannst vanta að kallinn væri í hlýjum og góðum, gamaldags flugmannajakka! Sjálfur átti maður auðvitað einn slíkan - enda dreymdi mann þá um framtíðarævintýri á sjóflugvélum í Alaska.

alfred_eliasson_loftleidirjpg

Flugmannajakkinn minn var næstum jafn flottur og hjá Alfreð Elíassyni. Sem hefur alltaf verið flughetjan mín. Kannski mest af því gömlu sleðarnir frá Geysisferðinni sögulegu á Vatnajökul 1951, lágu alltaf vestan við Klaustur. Grotnuðu þar niður í mosanum, skammt frá Systrastapa. Manni var a.m.k. sagt að þetta væru sleðar úr þeirri miklu ævintýraferð. Þegar Alfreð og félagar grófu upp amerísku skíðaflugvélina á Bárðarbungu og flugu henni burt af jöklinum. Það þótti mér alltaf heillandi saga.

Svo breyttust flugmannsdraumarnir. Sem er kannski miður. Það hefði örugglega verið gaman að fljúga í Alaska.


Kvöldið á Hólmavík

 

Á höfninni í Hólmavík fékk ég bestu rækju í heimi.

raekjaÞað var líklega vorið 1992 að ég vappaði þarna um höfnina í ljóma kvöldsólarinnar. Var þá nýlega útskrifaður lögfræðingur, að hrella góða Vestfirðinga með fjárnámsbeiðnum. Fólk sem ekki hafði staðið skil á tryggingaiðgjöldunum sínum hjá VÍS.

Þetta var seint í maí og kvöldfegurðin við Steingrímsfjörð var hreint æpandi. Eftir að hafa sporðrennt kvöldverðinum á gistiheimilinu rölti ég niður á höfn. Þar lá gljáandi fallegur rækjutogarinn, nýkominn að landi. Kallarnir buðu upp á stóra rækju. Hún reyndist einfaldlega eitthvert mesta ljúfmeti sem maður hafði smakkað.

Á gistiheimilinu var gestunum hvorki boðið upp á rækjur, né annað ferskmeti úr djúpi hafsins. Þar var borinn á borð djúpsteiktur kjúklingur og franskar. Það þótti mér svolítið hlægilegt, þarna í matarkistunni.

holmavikMorguninn eftir átti ég stutt stopp hjá sýslumanni til að afgreiða nokkur fjárnám gegn Strandamönnum. Hvorki náttúrufegurðin né rækjan höfðu náð að heilla aðkomumanninn frá Reykjavík. Honum þótti lítið til þorpsins koma. Hryllti sig við tilhugsuninni um að búa á slíkum stað.

Síðan þá eru liðin meira en sextán ár. Og síðan þá hef ég oft komið til Hólmavíkur. Í dag þykir mér Hólmavík eitthvert laglegasta þorp landsins. Og Steingrímsfjörðurinn alveg óskaplega fallegur. Gæti vel hugsað mér að eiga þar heima. Þó svo maður sé alltaf sami sokkurinn breytist verðmætamatið með árunum. Vonandi til hins betra.

Um tilefni  ferðarinnar umræddu til Hólmavíkur er það að segja, að ég varð fljótt leiður á þessu rukkarastarfi fyrir VÍS. Og hélt til náms í útlöndum. En Finnur Ingólfsson og félagar hans eignuðust VÍS. Það þótti vera voða sniðug einkavæðing á samvinnuhugsjóninni og átti að verða þjóðfélaginu öllu til mikilla hagsbóta.

En svo settu þeir blessaðir ljúflingarnir Ísland á hausinn með hjálp fleiri góðra manna. Brunabótafélagið brann upp í höndum fjárglæframanna og Samvinnutryggingar í leiðinni. Það gengur svona.

Ætli togarinn á Hólmavík flytji ennþá rækjuna góðu að landi? Eða er kannski löngu búið að selja kvótann burt?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband