Fimmtudagar og júlí

Ég sakna sjónvarpslausu fimmtudaganna. Og þess, þegar ekkert sjónvarp var í júlí.

Við fengum fyrsta sjónvarpið okkar 1974. Sem var nokkuð seinna en margir aðrir. Ég var þá á 8. árinu. Fram að þeim tíma hafði ég horft á Stundina okkar hjá Jóni og Imbu, vestan við túnið. Man ennþá hvernig draugarnir önduðu ofan í hálsmálið á mér, þegar ég hljóp í spretti aftur heim yfir túnið í myrkrinu.

HighNoonCooper

Svo fengum við loks sjónvarp. Það voru að koma Alþingiskosningar og pabba langaði að sjá kosningasjónvarpið. Því var næsta "kaupstaðarferð" notuð til að kaupa myndarlegt Philipstæki. Líklega hjá Heimilistækjum.

Þetta sjónvarpstæki entist nokkuð lengi. Næstum áratug. Það var að sjálfsögðu svarthvítt. Og var örugglega a.m.k. tvær mínútur að hitna áður en myndin birtist á skjánum. Það gat verið hroðalega pirrandi bið, þegar maður vissi að kúrekamyndin var alveg að byrja.

Tækið bilaði örskömmu fyrir jól, þegar ég var orðinn unglingur. Skyndilega var öll jóladagskráin í uppnámi! Þetta var líklega 21. eða jafnvel 22. desember. Giska á að árið hafi hafi verið 1981.

Pabbi hringdi óðara í Einar Vald, sem var útibússtjórinn í Kaupfélaginu okkar á Klaustri. Og viti menn; hann lofaði að nýtt sjónvarpstæki myndi koma með Kaupfélagsbílnum daginn eftir. Og þannig eignuðumst við litasjónvarp rétt fyrir jólin. Það voru góð jól.

Í júlí fór sjónvarpið í sumarfrí. Það var bara fínt. Maður var hvort sem er alltaf að sparka fótbolta úti á túni langt fram á kvöld. En svo kom viðburðurinn mikli í júlí 1982. Þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram á Spáni.

Mótið byrjaði í júní og maður fylgdist með hverjum einasta leik, sem sýndur var í sjónvarpinu. Svo komu mánaðarmótin dramatísku og það var slökkt á HM á Íslandi. En þegar Paolo Rossi og félagar hans voru komnir alla leið í úrslitin, ákváðu þeir sem réðu, að Sjónvarpið yrði opnað og úrslitaleikurinn sýndur í beinni útsendingu. Slíkt var einsdæmi.

Italy_1982_zoff_bw

Held að þetta hafi verið um miðjan mánuðinn. Í júlí 1982; sumarið góða þegar ég varð sextán.

Leikurinn var frábær; Ítalir unnu Vestur-Þjóðverja 3-1 og Dino Zoff lyfti bikarnum gyllta. Ég hélt af mikilli einlægni með Ítölunum og fagnaði ógurlega. Þá vorum við komin með litasjónvarp, en leikurinn var reyndar sýndur í svarthvítu.

Ég er ennþá á því að þetta hafi verið langbesta heimsmeistaramótið ever. Ítalirnir voru frábærir, en líklega voru þó Brassarnir með besta liðið. Zico, Eder og "barnalæknirinn" Socrates!

Svo fór Sjónvarpið aftur í frí. Og við strákarnir á Klaustri hlupum aftur út á tún. Að sparka bolta.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband