Paul Theroux

"Hver er uppáhaldsbíómyndin þín?"

Spurningar af þessu tagi eru algengar í ákveðinni tegund af viðtölum. Og er þá ekki aðeins spurt um kvikmyndir, heldur t.d. líka hver sé flottasti bíllinn eða besta bókin sem viðkomandi hafi séð og lesið.

Verold_sem-varSjálfum er mér ómögulegt að tilgreina hver sé "bestur". Ég hef séð margar góðar kvikmyndir. Og lesið fjöldann allan af góðum bókum. En með því að taka svona spurningar ekki of hátíðlega og beita einhverri rökréttri aðferð má hugsanlega finna svar. Hreinskilið svar. Ég held ég myndi þá tilgreina kvikmyndina Apocalypse Now. Þar á eftir kæmi svo runa af góðum myndum. Sem ég ætla ekki að fara útí hér.

Það er erfiðara að nefna eina bók. Það myndi jafnvel reynast mér erfitt að tilnefna uppáhaldsrithöfund. Freistandi að nefna einhvern sem mér líkar ákaflega vel við og þykir "fínn" pappír. Viðurkenndur af bókmenntaelítunni. Ég er t.d. mjög sáttur við bækur Stefan's Zweig. Og Vilhelm's Moberg. Og Milan Kundera. Og Erskine Caldwell. Svo virðist að ég sé mest fyrir að lesa verka látinna karla!

Ef ég ætti að nefna eina bók eftir einhvern þessara höfunda er það tvímælalaust Veröld sem var, sem kemur fyrst upp í hugann. Og Manntafl. Og Ódauðleikinn. Og Dagslátta drottins. Og Stund þín á jörðu.

En enginn af þessum snillingum er samt uppáhaldsrithöfundurinn minn. Eftir nokkra yfirlegu hef ég komist að niðurstöðu. Hann er meira að segja á lífi. Og heitir Paul Theroux.

Theroux_Paul-todayPaul Theroux er svo sannarlega talsvert langt frá því að vera einn af bestu núlifandi rithöfundur heims. Sumar skáldsögurnar hans, sérstaklega af þeim nýjustu, eru hreint ótrúlega lélegar. En margar hinnar eldri þykja mér brilljant. Það eru þó ferðsögubækurnar hans sem valda því að hann er uppáhaldið mitt. Núna er ég einmitt að lesa þá nýjustu; Ghost Train to the Eastern Star.

Er bara tæplega hálfnaður en tel mig þó strax geta fullyrt að hún muni ekki skilja mikið eftir sig. Theroux hefur sem sagt oft verið betri. Samt skondið að sjá hversu dregið hefur úr pirringnum hjá Paul. Það er einhvern veginn eins og hann sé loksins orðinn sæmilega sáttur við lífið og samferðarmenn sína. Ég hlakka líka til að lesa The Dead Hand, sem er nýjasta skáldsagan hans og var að koma út í Bretlandi fyrir rétt um mánuði síðan. Ferðasögubækurnar hans eru samt rjóminn, enda er ég löngu orðinn svolítið leiður á fiction!

Frægasta verk Paul Theroux er líklega Moskító-ströndin eða The Mosquito Coast, frá árinu 1982. Sú frægð stafar auðvitað ekki síst af kvikmyndinni sem eftir henni var gerð, með stjörnunni Harrison Ford, ungum River Phoenix og fleiri stórgóðum leikurum. Myndin sú er frá 1986 og var leikstýrt af ástralska snillingnum Peter Weir. 

Mosquito_Coast_Harrison_FordÍ þá daga tengdi ég þó þessa mynd ekki hið minnsta við Paul Theroux. Því ég hafði eldrei heyrt hann nefndan og var bara að fara á einhverja Harrison-Ford-mynd á hefðbundnu bíókvöldi. Það var ekki fyrr en haustið 1991, þegar ég heimsótti Ásgeir bekkjabróður minn úr lögfræðinni til Lundúna, að ég komst í kynni við Theroux.

Ásgeir, sem nú er aðstoðarforstjóri Samkeppnieftirlitsins, var þá í framhaldsnámi í Evrópurétti við LSE. Við höfðum útskrifast úr Lagadeildinni þá um vorið og trúðum held ég báðir á það að Ísland ætti endilega að komast sem fyrst inn í EB. Það átti eftir að dragast á langinn, sem kunnugt er.

Sjálfur fór ég að vinna í hálf leiðinlegu innheimtudjobbi hjá VÍS, en hann hélt um haustið til London. Ég notaði auðvitað tækifærið til að heimsækja Ásgeir og sjá þessa frægu borg í fyrsta sinn. Þar lá ég á gólfinu hjá Ásgeiri í holunni á horni Tottenham Court Road og Euston, beint yfir Warren Court neðanjarðarlestastöðinni.

Þetta var mikil stuðhelgi. Það besta var þó að við skyldum rölta við í "Stúdentakjallaranum" og gramsa þar svolítið í gömlum bókum, sem voru þar til sölu á slikk. Ásgeir benti mér á eina sem hann sagði vera eftir höfund sem ég myndi örugglega fíla. Þetta var velkt pappírskilja og titillinn var The Consul's File. Ég gaf líklega einhver tvö pund fyrir og the rest is history. Það var eitthvað við þessa bók sem náði tökum á mér. Það leiddi fljótlega til þess að ég las fleiri af skáldsögum Theroux og líka Lestarferðabækurnar hans.

riding_the_iron_roosterOg ég held satt að segja að þessar prýðilegu bækur Paul Theroux hafi mótað lífsviðhorf mitt verulega. Ég hef a.m.k. notið þeirra mjög. Og hugsa alltaf með þakklæti til Ásgeirs þegar ég byrja á nýrri bók eftir Theroux. Og svo ég leyfi mér að gerast ofurlítið skáldlegur: Ég held nefnilega að þessar lestarferðir Theroux með öllu óvænta samferðarfólkinu og ófyrirséðu atburðunum framundan séu alveg upplagðar til að minna mann á að vera ekki að reyna að skipuleggja líf sitt um of. Og njóta þess meðan er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hef lesið nokkrar bækur hans. Stórskemmtileg lesning, sem ég mæli með. Hann er ansi óvæginn höfundur og jafnvel svolítill nýlenduherrabragur á honum. Hann hefur verið kallaður the grumpy traveller. Meinhæðinni og með skemmtilega sýn á smáatriðin í kringum sig.

Vert að minnast á 'Pillars of Hercules', þar sem hann fer umhverfis miðjarðarhaf. Leitt að heyra að hann sé að verða eitthvað meyr með árunum. Þá hefur hann glatað því sem gerði hann að skemmtilegum höfundi og hugarferðalangi.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.12.2009 kl. 02:34

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að hann eigi son sem er frægur leikari.

Annars hefur mér stundum flogið í hug að það væri gaman að sjá útekt hans á Íslandi.  Maður ætti kannski að bjóða honum það.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.12.2009 kl. 02:36

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það vill reyndar svo til að ég setti mig í samband við Theroux fyrir fáeinum árum og reyndi að sannfæra hann um að koma til Íslands. Hann gaf lítið út á það en sagðist hafa áhuga á að heimsækja Grænland.

Já - Pillars of Hercules er satt að segja uppáhaldið mitt. Ásamt Suðurhafseyjabókinni; Happy Isles of Oceania.

Theroux er dýrðlegur fýlupoki. En mætti sýna örlítinn vott af sjálfhæðni. Þar er þó hægt að fara yfir strikið, eins og mér finnst Bill Bryson gera.

Held að annar sonur Theroux sé rithöfundur og hinn þáttagerðarmaður. Eftir að hafa verið í sambandi við Paul hér um árið, hafði annar sonurinn samband, en varð svo fúll þegar honum var ekki boðið ókeypis flug til Íslands. Grumpyið virðist hafa erfst. He, he.

Ketill Sigurjónsson, 6.12.2009 kl. 10:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband