Kiev

Kiev í febrúar er engin Pardís á Jörðu. Svo mikið er víst.

Borgin var óhemju grá og fólkið ennþá grárra. Ekkert að sjá af glæsileiknum sem maður upplifði í Moskvu; hvorki í hráum byggingum né í þreytulegu fólkinu. Enda mun Kiev nánast hafa verið gjöreytt í stríðinu og eftirstríðsarkitektúr kommúnismans ekki beint sá fallegasti. Íbúarnir í dag eru þjakaðir af kreppu og eflaust ekki til að bæta ástandið að í gegnum borgina rennur hágeislavirkt fljót sléttunar; Dnépr eða Dnieper.

Mikhail_Bulgakov_1En Úkraínumenn reyndust indælisfólk. Miklu þægilegri í viðmóti en Rússarnir í Moskvu. Ég hafði lítinn frítíma í þessari ferð, en þó einn eftermiddag. Hann notaði ég auðvitað til að leita uppi íbúðina þar sem Mikhail Bulgakov  er sagður hafa búið í með fjölskyldu sinni, áður en hann fluttist til Kákasus og síðar Moskvu.

Í dag er Mikhail Bulgakov einhver ástsælasti sonur Úkraínu og gott ef hann skrifaði ekki hluta af Meistaranum og Margarítu einmitt þarna í kuldalegu íbúðinni við Andreyevsky Spusk. Þar er nú safn með ýmsum persónulegum munum sem sagðir eru vera frá Búlgakov-fjölskyldunni. Samt tókst mér reyndar ekki að komast að því með fullri vissu hvort þetta sé í reynd íbúðin sem Búlgakovarnir bjuggu í - eða bara safn sem á að sína sambærileg húsakynni Búlgakov-fjölskyldunnar í Kiev.

Hef þó lesið einhvers staðar að þarna hafi Búlgakov ekki aðeins búið með foreldrum sínum og systkinum frá árinu 1906, heldur einnig haft læknastofu sína í húsinu. Líst vel á ef það er satt. Þá höfum við ég og Búlgakov gengið um sömu gólffjalirnar og sömu dyrastafina.

Meistarinn_og_MargaritaÞað er auðvitað algerlega ófyrirgefanlegt að ég skuli ekki hafa nefnt Búlgakov og Meistarann og Margarítu eða Örlagaeggin, hér í síðustu færslu. Hvar ég minntist á uppáhaldsrithöfundana mína. Auðvitað er Búlgakov sá albesti. Og þó sértsaklega sagan yndislega, þegar sjálfur Djöfullinn heimsækir Moskvu. Einfaldlega dásamleg bók, auk þess sem ég hef grun um að þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur geri þetta listaverk jafnvel enn betra en það er á frummálinu.

Mér hefur alltaf þótt það svolítið táknrænt - eða a.m.k. skemmtilegt -að árið sem Meistarinn og Margaríta var loks gefin út, var einmitt 1966. Fæðingarárið mitt. Og sökum þess að þetta er eitthvert frábærasta skáldverk sem ég hef nokkru sinni lesið, notaði ég tækifærið í Kiev að fara á slóðir Búlgakov's .

Þetta var einhver alfurðulegasta heimsókn á safn sem ég hef lent í. Maður kemur inní litla afgreiðslu og kaupir þar aðgöngumiða hjá spikfeitri kerlingu handan við lítið op eða lúgu. Eins og var í íslenskum félagsheimilum hér í Den, hvar sjoppan var þegar samkundur voru haldnar. Er svo sagt - eða öllu heldur skipað - að bíða (Wait Hír!).

Eftir dágóða stund birtist miðaldra kona, alúðleg á svip og vísaði mér upp lúna timburstigann. Þangað komið birtust fyrstu íveruherbergin með afskaplega fáum innanstokksmunum en nokkrum gömlum myndum af fólki úr Búlgakov-fjölskyldunni á veggjunum.

Bulgakov_wife_Tatiana Nikolaevna LappaDyrnar inn í næsta herbergi voru lokaðar. Eftir að hafa haldið yfir mér ítarlega ræðu á úkraínsku og bent hingað og þangað um herbergið, gekk konan að lokuðum dyrum og lagðist á skráargatið. Setti svo fingur á varir sér og gaf mér merki um að bíða. Kraup svo aftur við hurðina, kíkti í gegnum skráargatið á ný, stóð upp, opnaði og vísaði mér inn í næsta herbergi.

Svona gekk þetta í hverju herbergi og þau voru satt að segja all mörg. Ég fattaði fljótlega að á undan mér var annar safngestur, sem fékk líka svona prýðilega persónulega þjónustu og ætlast var til þess að ekki kæmi annar inn fyrr en hinn fyrri væri kominn í næsta herbergi og búið að loka á eftir honum.

Þetta var allt hið furðulegasta og ég varð hreinlega hálf ringlaður af öllu saman. Var farinn að leggja eyra á hurðina með leiðsögumanni mínum og fékk líka að kíkja gegnum skráargat. Þetta var orðinn skemmtilegur leikur eins og í kjallaranum austur á Klaustri hér í gamla daga. Ég komst allur í stuð og hafði gaman af þessari sérkennilegu safnaskoðun. Sú úkraínska og ég áttum líka hrókasamræður um Búlgakov. Þar sem hún mælti á móðurmáli sínu og ég á íslensku og kinkuðum bæði ákaft kolli. Einhvern veginn var eins og við skildum hvort annað prýðileg.

Master_and_MargaritaLoks var hringferðinni lokið, ég búinn að grandskoða ófáar ljósmyndir af systrum Búlgakov's, strjúka yfir rúmfötin hans (sic) og skoða bollastellin. Hlóð þjórfé á þessa ágætu konu, sem hafði verið leiðsögumaður minn og kunni ekki stakt orð í ensku. Og stakk mér svo útí gráa og geislavirka rigninguna. Rölti niður eftir Andreyevsky Spusk og niður að Dnépr. Stóð andaktugur og horfði á fljótið streyma lygnt fyrir fótum mér. Fullt af banvænni geislavirkni frá Chernobyl, sem er einungis um eitt hundrað km norður af Kiev. Ég var afskaplega ánægður með að hafa drifið mig á safn Búlgakov's. Og hlakkaði líka til að koma heim í kolsvart Þorramyrkrið á Keflavíkurflugvelli.

Kannski fer ég aftur til Kiev. En þá ætla ég að fara um vor. Þó svo Dnépr sé jafn geislavirk líka á þeim tíma. Kannski kemst ég alla leið til Odessa og get þá rifjað upp hina stórkostlegu mynd; Beitiskipið Pótemkín. Ég er strax farinn að hlakka til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband