Vor í Sydney

Fyrir um áratug var bloggarinn nokkra mánuði suður í Sydney í Ástralíu. Þar var einmitt rétt i þessu verið að fagna nýju ári; 2010. Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu, skömmu eftir heimkomuna: 

Sydneybúar undirbúa sig nú af kappi fyrir Ólympíuleikana sem haldnir verða þar næsta "vor", þegar haust gengur í garð hjá okkur á Íslandi á þessu herrans ári 2000. Ketill Sigurjónsson stundaði lögfræðistörf í nágrenni við Ólympíuleikvanginn um nokkurra mánaða skeið, á milli þess sem hann buslaði í Kyrrahafinu með eiginkonu og dóttur. Hér segir frá lífinu í þessari afskekktu heimsborg.
 
Qantas-flugvélin með stílfærða rauða kengúru á stélinu lenti með okkur síðla kvölds á sömu slóðum og kapteinn Cook tók land fyrir tæpum 230 árum. Það var við sólarupprás 19. apríl 1770 sem fyrstu Evrópumennirnir litu austurströnd Ástralíu augum. Sjóliðsforinginn James Cook hafði nýlokið farsælli sex mánaða siglingu umhverfis Nýja Sjáland og kortlagt strandlengjuna af ótrúlegri nákvæmni. Að því verki loknu var skipi hans, Endeavour, beint í vesturátt í því skyni að komast til botns í ráðgátunni um hið meinta Terra Australis Incognita og stærð Nýja-Hollands (svo nefndu Evrópubúar það land sem við þekkjum í dag sem vesturströnd Ástralíu). Eftir mánaðar siglingu frá Nýja Sjálandi varð áhöfnin vör við nokkur fiðrildi og fáeina smáfugla og nokkru síðar birtist þeim land. Siglt var norður með ströndinni uns komið var að flóa sem þótti hentugt akkerislægi. Það vakti athygli siðprúðra Bretanna að frumbyggjarnir sem þeir sáu notuðu "ekki einu sinni fíkjublað til að hylja nekt sína", eins og segir í dagbók grasafræðingsins Joseph Banks. Evrópumenn voru fljótir að innleiða sitt siðferðismat og Sydney "státar" nú af einu helsta dóp- og melluhverfi í Suðurhöfum.
 
sydney_aramot_2010.jpg

Flóinn umræddi var nefndur Botany Bay (Grasaflói) sökum hinnar fjölbreyttu flóru sem þar var að finna. Nú teygja upplýstar flugbrautir sig út í áður óspilltan Grasaflóann og stórar breiður af olíugeymum standa þar sem frumbyggjarnir réðu ríkjum. Þrátt fyrir kvöldmyrkrið og ferðaþreytuna eftir 11 klst. flug frá Kaupmannahöfn til Bangkok og 9 stundir að auki þaðan til Sydney máttum við til með að fara hringferð um miðborgina áður en haldið yrði "heim" í úthverfin. Ástralskt vinafólk okkar, sem tók á móti okkur á flugvellinum, sá til þess að leiðin lægi fram hjá flóðlýstu óperuhúsinu, sem minnti á skip undir fullum seglum í gömlu höfninni (Port Jackson). Upp frá höfninni var þrætt á milli háhýsanna sem umkringja lágreistu nýlendubyggingarnar og ekið yfir Hafnarbrúna (Sydney Harbour Bridge), sem lokið var við að byggja 1932 og er enn í dag óvenju glæsilegt mannvirki. Blóðhlaupin augu okkar Þórdísar stóðu á stilkum en litli brjóstmylkingurinn lét sér fátt um finnast og bætti á sig einum blundi enn.

Það tók mig næstum tvo sólarhringa að ná áttum á ný. Á öðrum degi staulaðist ég útí garð þar sem þær mæðgur sátu í mestu makindum og fylgdust með virðulegri garðeðlunni af blátunguætt (blue tongued skink) og öldruðum heimiliskettinum horfast í augu af eilífum fjandskap. Við höfðum leigt lítið garðhýsi hjá fullorðinni konu sem bjó næst ströndinni í Newport, dágóðan spöl norður af miðborginni. Þetta var í fyrsta sinn sem ég leit Ástralíu augum í dagsbirtu og fljótlega fékk ég staðfestingu á að við værum á suðurhveli; ekki var um villst að sólin gekk í "vitlausa" átt. Brátt yrði hún beint í norður og komið hádegi.

sydney_newport_947581.jpg

Þó svo að heldur væri hráslagalegt þennan ágústdag létum við það ekki aftra okkur frá því að tölta yfir götuna og niður að sjó. Við trúðum vart eigin augum þegar við sáum breiða gula sandströndina; þetta var betra en í nokkrum glansmynda-sólarlandabæklingi. Skór og sokkar flugu sína leið og tærnar fengu fyrstu kynni af öldum Kyrrahafsins. Ströndin var auð, enda sjórinn í svalara lagi og vart baðstrandarveður. Íslensku kuldaskræfurnar frá hitaveituborginni Reykjavík drifu í að finna íþróttavöruverslun og fá sér blautbúninga, og að því búnu var hægt að skella sér af alvöru í öldurótið. Guðrún Diljá, sjö mánaða dóttir okkar, lét sér aftur á móti nægja að sitja í makindum á ströndinni og bryðja sand milli allra fjögurra tannanna.

Við sáum fram á sannkallað sældarlíf næstu mánuðina. Þegar ég kæmi heim af skrifstofunni síðdegis myndi ég skokka beint niður á strönd þar sem þær mæðgur hefðu flatmagað lungann úr deginum. Það kom þó örlítill efasvipur á sólþyrsta Íslendingana þegar gengið var fram á hákarlsunga, sem lá hálfkafnaður í fjöruborðinu. Þrátt fyrir að vera ekki nema rúmt fet að lengd gaf tanngarðurinn svo sannarlega tilefni til að semja strax frið við ættingjana. Með skilaboðum um ævarandi fóstbræðralag var "litla krílinu" gefið líf og var hann fljótur að láta sig hverfa í hafið (vonandi fullur þakklætis). Strandlífið var byrjað. 

 

Hin myrka arfleifð

australia_first_fleet-1788.jpg
Það liðu tæpir tveir áratugir frá uppgötvun kapteins Cook þar til Evrópumenn tóku að setjast að þar sem nú er Sydney. Breska stjórnin ákvað loks að nýta þetta land til að létta af fangelsunum heima fyrir og stofna fanganýlendu í Ástralíu. Það var snemma árs 1788 að fyrstu fangaskipin komu á leiðarenda og sigldu inn Port Jackson, sem reyndist mun betra hafnarstæði en Botany Bay. Um borð voru tæplega 1500 manns og þar af 760 fangar; karlmenn, konur og börn! Óbótamennirnir höfðu margvíslega glæpi á samviskunni; allt frá vasaklútahnupli til manndrápa.
 
Næstu mánuðina lá við hungursneyð í þessu nýja samfélagi manna, sökum þess hversu jarðvegurinn reyndist erfiður til landbúnaðar. En fljótlega fundust frjósamari svæði lengra upp með Parramatta ánni, sem rennur til sjávar við höfnina. Ekki leið á löngu þar til farið var að huga að frekara landnámi í Ástralíu og fyrstu frjálsu landnemarnir komu þangað 1793. Lengi vel voru Ástralir þó þekktir fyrir ofbeldiskennt karlmannasamfélag sitt og gullæðið upp úr 1850 varð ekki til að róa mannlífið.
 

Einn refsifanganna í Ástralíu er Íslendingum að góðu kunnur. Eftir misheppnað valdarán sitt á Íslandi 1809 var Jörundur "hundadagakonungur" sendur með fangaskipi til áströlsku eyjarinnar Tasmaníu. Þar náði hann að vinna sig í áliti meðal breskra yfirvalda og stýrði nokkrum leiðöngrum um óþekkta og torfæra hluta eyjarinnar á þriðja áratug 19. aldar. Hann lést í Tasmaníu árið 1841. Á milli þess sem Jörundur vann afrek sem landkönnuður tók hann vafalítið þátt í helstu "íþrótt" breska heimsveldisins á þessum slóðum, sem var þjóðarmorð á frumbyggjum.

trugannini_1866.jpg

Það var árið 1803 sem Bretar stofnuðu til fanganýlendu á hinni afskekktu Tasmaníu. Tasmaníueyja er u.þ.b. 68 þúsund ferkílómetrar að stærð og liggur um 200 km suður af meginlandi Ástralíu. Þá bjuggu þar allt að 5 þúsund frumbyggjar og voru þeir náskyldir Ástralíufrumbyggjum. Fljótlega var byrjað að ofsækja hina innfæddu, misþyrma þeim og myrða. Fyrstu kynni þeirra af Evrópumönnum gáfu þó ekki tilefni til ótta. Árið 1802 hafði franski dýrafræðingurinn Francois Peron átt vinsamleg samskipti við Tasmaníufrumbyggja og hreifst hann mjög af hjálpsemi og gjafmildi þessa fátæka fólks. Aðeins ári síðar voru Bretar byrjaðir að limlesta innfædda sér til gamans, en þeir brugðust til varnar svo til átaka kom. Menn hlutu peningaverðlaun fyrir hvert frumbyggjahöfuð; 5 pund fyrir fullorðna en 2 pund fyrir börn, og vinsælt var að gera "krans" úr höfðum karla og hengja hann um háls kvennanna.

Árið 1847 voru einungis 47 frumbyggjanna í Tasmaníu á lífi. Þeir voru fluttir á smáeyju norður af Tasmaníu, sem kennd er við einn merkasta landkönnuð Breta; Matthew Flinders. Síðasti Tasmaníumaðurinn, kona að nafni Truganini, lést á Flinderseyju 1876 og er vart hægt að hugsa sér einmanalegri örlög. Þrátt fyrir ofbeldi og grimmd Breta í fanganýlendunni hefur það eflaust einnig flýtt fyrir útrýmingu frumbyggja Tasmaníu að margir þeirra létust úr sjúkdómum sem Evrópumenn báru með sér, t.d. berklum, mislingum og sýfilis. 

 

Á Norðurströndum

Mér var hætt að verða um sel. Brimbrettið skaust nokkra metra upp í loftið eins og korktappi og hvarf í brimgarðinn. Himinháar öldurnar kaffærðu mig hvað eftir annað og ég hentist til eins og laufblað í stormi. En sjávargoðin virtust skynja að ekki væri ávinningur í þessum hortitt auk þess sem það væri illa gert að taka hann frá nýfæddu barni og ungri konu, sem stóð áhyggjufull uppi á ströndinni. Ofsafengnar öldurnar báru mig seint og um síðir á rólegri sjó og við illan leik tókst mér að komast nær landi og...loks að finna sandbotninn undir stórutánum.
 

Þrátt fyrir rólega ásýnd geta strendurnar við Sydney verið mjög varasamar vegna brims og sterkra strauma og sérstök ástæða er fyrir óvana að fara varlega. Strandlengjan er all vogskorin og flóar og víkur skapa glæsilega umgjörð fyrir borgina. Sydney er stærsta borg Ástralíu með um 4 milljónir íbúa og því er augljóst að þekktustu strendurnar næst miðbænum, t.d. Bondi-beach, eru ekki mjög fýsilegar fyrir þá sem kjósa fámenni, hreinan sand og tæran sjó. En þegar komið er í strandúthverfin blasir Suður-Kyrrahafið við í allri sinni dýrð. Hver víkin tekur við af annarri með friðsælum sandströndum en á milli eru lág klettabelti.

sydney_manly_947585.jpg

Þetta svæði kallast Norðurstrandir (Northern Beaches) og sá sem kynnst hefur þeim missir fljótt áhugann á troðnum sandbleðlunum við Miðjarðarhafið. Að undanskildu hásumrinu er yfirleitt fámennt í fjörunni og á virkum degi getur maður nánast haft heilu strendurnar fyrir sjálfan sig. Besti hluti Norðurstranda er tvímælalaust á alllöngum en mjóum tanga eða skaga, sem teygir sig norður frá miðborginni. Að austanverðu er sjálft Kyrrahafið en vesturströnd skagans liggur að flóa sem nefnist Pittwater. Nyrst er Pálmaströndin (Palm Beach) þar sem milljónamæringar eins og Nicole Kidman, stolt áströlsku þjóðarinnar, og karl hennar Tom Cruise eiga sér athvarf. Suður af Pálmaströndinni liggur uppaströndin Avalon Beach, þá kemur hin þrönga og straumharða Bilgola-vík, svo Newport Beach (ströndin okkar), þá Mona Vale og svo hver víkin af annarri alla leið suður til Manly. Avalonströndin er vinsæll tökustaður fyrir sjónvarpssápurnar sem Ástralir framleiða á færibandi og meðan á dvöl okkar stóð var sjálfur sundskýlukonungurinn David Hasselhoff (Mitch) mættur á Avalonströndina til að skjóta Strandvarðaþætti undir heitinu "Baywatch Down Under". Ég sat um hann í von um eiginhandaráritun eða jafnvel statistahlutverk sem sundmaður í nauð, en án árangurs.

Þó svo að sólin og ströndin í Newport væru til þess fallin að vera ávallt í góðu skapi gat baráttan við "húsdýrin" gert manni gramt í geði. Þar fór Kakkalakki hershöfðingi fremstur í flokki ásamt myndarlegri hjörð sinni og helsti vígvöllurinn var eldhúsið. Einnig gátu ástarleikir pokadýranna í þakskegginu um miðjar nætur valdið andvökum og pirringi. Þau nefnast "possoms" og birtast í trjánum eða á símalínum eftir að kvöldmyrkrið skellur á og sníkja gjarnan matarafganga af kvöldverðarborðinu. Þetta eru bangsaleg dýr á stærð við ketti og eru með þykkan brúnan feld og stór augu. Geðþekkustu kvikindi en ástarlíf þeirra mætti vera kyrrlátara. Í garðinum bjó einnig annað pokadýr sem kallast "bandicoot" og er þetta e.k. pokarotta með langt og mjótt trýni. Sú var heldur feimnari en "possomin", en gat þó ekki stillt sig um að gera sig sæta og sníkja bita þegar við borðuðum útí garði á kvöldin.

 

Hákarlaslóðir við Manly

Skömmu fyrir jólin dvöldum við um skeið í Manly til að vera nær miðborginni og fá smjörþefinn af fjölbreyttu mannlífi Sydney. Þá var hitastigið, og þó fyrst og fremst rakastigið, heldur betur farið að hækka. Sjálft sumarið á Sydney-svæðinu er engan veginn rétti tíminn til að sækja borgina heim því þá verður loftið afar rakt og þrúgandi. Svækjan verkaði greinilega betur á kakkalakkana en Íslendingana og bera fór á tilhlökkun að komast heim á klakann fyrir hátíðarnar. Í Newport fitjuðu menn upp á trýnið þegar við fluttum okkur til Manly; staðurinn var sagður "very busy" - mjög erilsamur og "terribly expensive" - hræðilega dýr. Það reyndist orðum aukið, a.m.k. þegar íslenskar eyðsluklær voru annars vegar.
 
Þrátt fyrir að vera í næsta nágrenni við miðborg Sydney er Manly í raun lítill bær fremur en úthverfi. Upplagt er að taka ferjuna þangað frá gömlu höfninni, en siglingaleiðin liggur um sundin utan við miðborgina og hvergi fær maður fallegri útsýn til borgarinnar. Í Manly er mikið af veitingahúsum, börum, skemmtistöðum og kaffihúsum og ungt fólk sækir mjög á þessar slóðir. Það var líka mikill kostur að við Manly er að finna litla skjólsæla vík (Shelly Beach eða Skeljavík) þar sem Guðrún litla Diljá gat buslað í flæðarmálinu og svamlað um með foreldrunum. Í staðinn varð hinsvegar að hvíla brimbrettið.
 
port_jackson_shark_1.jpg

Utan við flestar baðstrendur Sydneyborgar hafa lengi verið lögð sérstök net til að verjast ágangi hákarla, sem eru talsvert algengir á þessum slóðum. Vegna umhverfisverndarsjónarmiða hefur þess konar netum verið fækkað mjög enda drepast bæði skjaldbökur og höfrungar í þeim. Sem fyrr eru hákarlarnir þó afar óvelkomnir strandgestir en mjög sjaldgæft er að þeir ráðist á fólk.

Ég fékk reyndar nasasjón af nokkrum hákörlum snemma um vorið (síðla í september). Sænskættaður starfsfélagi minn vissi af stað út af Skeljavík þar sem s.k. "Port Jackson"-hákarlar safnast saman um fengitímann. Tækifærið var gripið einn góðan veðurdag til að líta herlegheitin augum og syntum við útí víkina. Og viti menn; þarna á um 6 metra dýpi voru þrjú kvikindi á sveimi. Þeir voru u.þ.b. mannslengd og lágu nánast hreyfingarlausir á botninum. Að vísu er þessi tegund hákarla hálfgerðir svindlhákarlar, sökum þess að þeir eru tannlausir! Engu að síðar eiga þeir það til að japla á sundfólki en viðkomandi sleppur oftast með slæman marblett á handlegg eða kálfa. Í okkar tilviki höfðu hákarlarnir engan áhuga á þessum ógeðfelldu homo sapiens.

 

Í nafni réttlætisins

Vera mín í Sydney fólst þó ekki bara í hákarlaskoðun og sjóbusli. Tilefni ferðarinnar var boð frá Department of Land and Water Conservation (DLWC) um að koma og öðlast starfsreynslu við eftirlit og framfylgd á nýrri og framsækinni gróðurverndarlöggjöf. DLWC er sjálfstætt ráðuneyti í Nýju Suður-Wales og fer með ýmis verkefni sem hér á landi heyra undir umhverfisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Hjá DLWC vann ég við að fara yfir mál sem bárust frá héraðsskrifstofunum úti á landi um meint brot gegn gróðurverndarlöggjöfinni og undirbjó ákærur.
 
australia_salinity.jpg
Ástralir standa frammi fyrir gífurlega umfangsmikilli gróðureyðingu af manna völdum og er nýju lögunum ætlað að sporna við þeirri þróun. Ástæða vandans er fyrst og fremst sú að trjám og kjarri er rutt af landi og því breytt í akuryrkjuland, þó svo að oft henti landið betur til annarra nota, t.d. hóflegrar búfjárbeitar. Þegar til þess kemur að mál fer fyrir dóm er ráðinn sjálfstætt starfandi lögmaður (barrister) til að flytja málið, en starfsfólk DLWC er honum til liðsinnis. Gervitunglum og nýjustu tölvutækni er beitt til að afla sönnunargagna um gróðurfar og landnýtingu, en torvelt getur verið að sanna að brotið hafi verið gegn lagaákvæðum um vistfræðilega sjálfbæra landnýtingu (ecologically sustainable land use). Mjög strangt er tekið á því ef farið hefur verið útí framkvæmdir eða aðrar aðgerðir sem valda gróðurspjöllum, án þess að afla fyrst tilskilinna leyfa og eiga hinir brotlegu yfir höfði sér þungar fjársektir; oft jafngildi nokkurra milljóna ísl. króna.
 
Málin eru rekin fyrir sérdómstóli í Sydney, sem nefnist Land and Environment Court, en unnt er að skjóta dómum hans til Hæstaréttar fylkisins (New South Wales Supreme Court). Málflutningur í hverju máli tók almennt 3-4 daga og fór mestur tíminn í vitnaleiðslur og karp hárkolluskreyttra lögmannanna um það hvað skyldi fært til bókar og hvort ný sönnunargögn fengjust lögð fram. Gera þurfti réttarhlé til að menn gætu fylgst með nágrannaslagnum við Ný-Sjálendinga í "brussubolta" (Australian football - svipar mjög til rugby), en þessi ófágaða knattspyrna er sú íþrótt sem þjóðirnar tvær eru hvað helteknastar af. Þó réttarhöldin reyndust nokkuð langt frá því réttardrama-tempói sem við fáum svo oft að sjá í amerískum bíómyndum lak svitinn í stríðum straumi undan gulum hrosshárskollunum og niður á bleika svíra lögmannanna. Mig dauðlangaði í eina svona kollu, helst með tveimur fléttum; það myndi áreiðanlega virka vel í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

 

Borgarlíf

Það er ekki orðum aukið að eina rétta leiðin til Sydney sé frá sjó. Þegar við tókum ferjuna frá Manly og sigldum í átt að miðbænum varð ekki hjá því komist að viðurkenna að borgarstæði Sydney er afar fallegt. Þegar komið er í land við Circular Quay er upplagt að tylla sér við einn ostrubarinn við höfnina og fá sér eins og tylft af hráum gómsætum ostrum og skola þeim niður með ísköldu áströlsku hvítvíni.
 
sdney_operuhusid.jpg
Eftir hressinguna má rölta að hinu sögufræga Óperuhúsi og skoða það að utan sem innan. Vilji menn heldur njóta útivistar og veðurblíðu er upplagt að ganga nokkur hundruð metrum lengra og slappa af í forsælunni í Grasagarðinum (Botanic Gardens), sem er eins og vin í miðborgarhávaðanum. Þar áttum við ánægjulegar stundir undir risavöxnum trjánum og sóttum m.a. "miðsumartónleika" í desember. Áheyrendurnir lágu í grasinu með nesti sitt undir sinfóníuleik hljóðfæraleikara, sem voru uppábúnir að sið Vínaraðalsins á tímum Mozart og Guðrún Diljá sat og dillaði höfðinu í takt við tónlistina. Við sólarlag komu flokkar af skrækjandi leðurblökum fljúgandi heim, hengdu sig neðan á trjágreinarnar og störðu á mannfólkið fyrir neðan sig supplandi kampavín í friðsælli náttúrunni. Þrátt fyrir að vera heldur ófrýnilegar eru þær hin bestu skinn og lifa eingöngu á ávöxtum og hafa því aðrar matarvenjur en frænkur þeirra blóðsugurnar. Engu að síður þótti mér tryggara að hafa hvítlauk við höndina.
 

Samsetning áströlsku þjóðarinnar hefur breyst mikið síðasta aldarfjórðunginn. Lengi vel var einungis Bretum og N-Evrópumönnum heimilað að setjast að í Ástralíu og það var ekki fyrr en 1966 að vikið var frá stefnunni um "hvíta þjóð" (white Australia policy). Á síðari árum er það ekki litarháttur manna sem ræður því hverjir fá innflytjendaleyfi, heldur fyrst og fremst góð menntun og heilsa og fjárhagslegt sjálfstæði. Fyrir vikið er t.d. mikið um að Japanir og fólk frá Hong Kong setjist að í landinu við heldur lítinn fögnuð ýmissa góðborgara sem rekja sig til afbrotamanna frá hinu eina sanna Stóra-Bretlandi. Einnig er nú að finna heilu hverfin þar sem býr fólk frá löndum eins og Indlandi, Líbanon og Grikklandi. En þrátt fyrir fjölbreytt mannlíf eru engilsaxnesk áhrif enn mjög ríkjandi í Sydney.

Ferðamenn sem sækja Sydney heim eru að langmestu leyti Japanir og Ameríkanar og raunar má segja að gamla borgarstæðið (the Rocks) hafi verið "hernumið" af japönsku ferðafólki, sem tiplar eftir öngstrætunum vopnað myndbandsupptökutækjum og eyðir hýrunni í ástralska eldópala og leðurvörur úr kengúru- eða krókódílaskinni. Sydney er mikil verslunarborg og sjálfsagt fyrir kaupglaða Mörlanda að fá þar smá útrás. Betri fatnaðinn má t.d. nálgast í verslunarmiðstöðvunum David Jones eða Chifley Tower, en umfram allt ber að skoða Viktoríu-verslunarklasann (Queen Victoria Building eða QVB). Sjálf byggingin er frá 1813 og hýsti lengi ávaxta- og grænmetismarkað borgarinnar. Árið 1986 var lokið við að gera þessa glæsibyggingu upp og er fallegra verslunarumhverfi vandfundið.

australia_tom_roberts.jpg

Eftir kaupgleðina er upplagt að lífga örlítið upp á andlegu hliðina og fara í helsta listasafn borgarinnar, New South Wales Art Gallery, þar sem frumbyggjalist og "gömlu meistarana" ber hæst. Láti fólk sér ekki nægja kyrrlátari hliðar mannlífsins er rétt að stefna á Paddington, sem er hverfi skammt sunnan miðbæjarins með fallegum byggingum og fjölskrúðugu mannlífi; allt frá teprulegum kennslukonutýpum til kafloðinna vaxtarræktartrölla á lífstykki einu saman. Þegar kvölda tekur halda þeir sem leita villtra skemmtana til Kings Cross, en við fengum að vísu enga reynslu af "fjörinu" þar. 

Eins og vera ber þegar maður er ráðvilltur gestur frá hinum endimörkum jarðarinnar lentum við í ýmsum smáhremmingum. Sérkennilegasta uppákoman af því tagi var þó þegar minnstu munaði að við fengjum ekki að yfirgefa borgina (landið). "Iceland" fannst nefnilega ekki í tölvukerfi alþjóðaflugvallarins í Sydney og starfsfólkið kannaðist alls ekki við neitt land með þessu kuldalega heiti og hafði á orði að vegabréf okkar hlytu að vera úr Cheeriospakka. Og það þótt Ísland hefði undanfarna mánuði verið mjög áberandi í fjölmiðlunum; "Börn náttúrunnar" og "Cold Fever" í sjónvarpinu, stórt viðtal við Björk í sunnudagsblaðinu, lýsingar á drykkjusiðum og hömlulausu skemmtanalífi Íslendinga í öðru sunnudagsblaði, Reykjavík nefnd í tískuþætti í sjónvarpinu sem "heitasti staðurinn" ásamt New York og Sydney o.s.frv. (allt þetta venjulega þvaður sem fær Frónbúahjörtun til að slá örar; a.m.k. mitt!).

Ég maldaði því í móinn við innritunarborðið og muldraði eitthvað um "Scandinavia" og "close to Greenland - the North Pole you know", en án árangurs. Loks þegar við vorum farin að sætta okkur við að setjast að í einhverri víkinni á Norðurströndum fannst ákvörðunarstaðurinn "Republic of Keflavík". Með semingi féllumst við á að vera send þangað; það hlutu að verða einhver ráð með að komast frá því bananalýðveldi og heim til Íslands.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband