Kvöldið á Hólmavík

 

Á höfninni í Hólmavík fékk ég bestu rækju í heimi.

raekjaÞað var líklega vorið 1992 að ég vappaði þarna um höfnina í ljóma kvöldsólarinnar. Var þá nýlega útskrifaður lögfræðingur, að hrella góða Vestfirðinga með fjárnámsbeiðnum. Fólk sem ekki hafði staðið skil á tryggingaiðgjöldunum sínum hjá VÍS.

Þetta var seint í maí og kvöldfegurðin við Steingrímsfjörð var hreint æpandi. Eftir að hafa sporðrennt kvöldverðinum á gistiheimilinu rölti ég niður á höfn. Þar lá gljáandi fallegur rækjutogarinn, nýkominn að landi. Kallarnir buðu upp á stóra rækju. Hún reyndist einfaldlega eitthvert mesta ljúfmeti sem maður hafði smakkað.

Á gistiheimilinu var gestunum hvorki boðið upp á rækjur, né annað ferskmeti úr djúpi hafsins. Þar var borinn á borð djúpsteiktur kjúklingur og franskar. Það þótti mér svolítið hlægilegt, þarna í matarkistunni.

holmavikMorguninn eftir átti ég stutt stopp hjá sýslumanni til að afgreiða nokkur fjárnám gegn Strandamönnum. Hvorki náttúrufegurðin né rækjan höfðu náð að heilla aðkomumanninn frá Reykjavík. Honum þótti lítið til þorpsins koma. Hryllti sig við tilhugsuninni um að búa á slíkum stað.

Síðan þá eru liðin meira en sextán ár. Og síðan þá hef ég oft komið til Hólmavíkur. Í dag þykir mér Hólmavík eitthvert laglegasta þorp landsins. Og Steingrímsfjörðurinn alveg óskaplega fallegur. Gæti vel hugsað mér að eiga þar heima. Þó svo maður sé alltaf sami sokkurinn breytist verðmætamatið með árunum. Vonandi til hins betra.

Um tilefni  ferðarinnar umræddu til Hólmavíkur er það að segja, að ég varð fljótt leiður á þessu rukkarastarfi fyrir VÍS. Og hélt til náms í útlöndum. En Finnur Ingólfsson og félagar hans eignuðust VÍS. Það þótti vera voða sniðug einkavæðing á samvinnuhugsjóninni og átti að verða þjóðfélaginu öllu til mikilla hagsbóta.

En svo settu þeir blessaðir ljúflingarnir Ísland á hausinn með hjálp fleiri góðra manna. Brunabótafélagið brann upp í höndum fjárglæframanna og Samvinnutryggingar í leiðinni. Það gengur svona.

Ætli togarinn á Hólmavík flytji ennþá rækjuna góðu að landi? Eða er kannski löngu búið að selja kvótann burt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband