Hafþór

Ég var niðrí geymslu að gramsa. Og fann þar nokkur gömul umslög, stíluð á "yngispilt Ketil Sigurjónsson".

Utanáskriftin var bersýnilega ekki rithönd Hafþórs. Heldur væntanlega Elsu, mömmu hans. Bréfin eru aftur á móti skrifuð af honum sjálfum, af mikilli vandvirkni. Þessi bréf eru frá vetrinum 1975-76 þegar ég bjó í Danmörku. Þangað flutti ég með pabba, mömmu og Æsu til ársdvalar síðsumars 1975; rétt fyrir 9 ára afmælisdaginn. Og þá flutti líka Hafþór frá Klaustri og hélt með mömmu sinni í Mosfellssveit.

HafthorVið höfðum þá í einhver ár verið fjarska góðir vinir eða frá því Elsa fluttist að Klaustri og gerðist ráðskona við Kirkjubæjarskóla. Ekki héldust bréfaskiptin lengi eftir brottflutninginn, en eftir það rakst ég einstaka sinnum á Hafþór á förnum vegi. Alltaf var hann ákaflega líkur drengnum sem hafði verið svo góður félagi minn austur á Kirkjubæjarklaustri. Rólegur, yfirvegaður og glaðlyndur í senn. Enda held ég að öllum á Klaustri hafi líkað ákaflega vel við snáðann.

Sérstaklega var foreldrum mínum hlýtt til Hafþórs. Sjálfur var ég alltaf morgunsvæfur krakki, en Hafþór aftur á móti árrisull með afbrigðum og birtist oft heima um það leiti sem pabbi vaknaði. Væri pabbi ekki þegar byrjaður á morgunrakstrinum kom fyrir að Hafþór settist til fóta í bólinu hjá foreldrum mínum og kjaftaði þá á honum hver tuska. Gott ef ég fann ekki stundum til smá afbrýðissemi yfir því hversu hlýlega þau töluðu oft um hann og höfðu óskaplega gaman af þessum glaðlynda morgunhana.

En oftast vorum við miklir mátar, enda á þeim dásamlega aldri þegar hver dagur er nýtt ævintýri og lífið áhyggjulaus og skemmtilegur leikur. Og þó svo ég hafi lítið haft af Hafþóri að segja síðustu þrjá áratugina og einungis hitt hann sárasjaldan, varð mér afar hverft við þegar ég frétti af því að hann hefði látist í flugslysi.

Hafthor_Air_Atlanta_planeÞað var skrítin tilfinning að hjóla Skerjafjarðarstíginn meðfram Reykjavíkurflugvelli í dag og horfa á rellurnar koma inn til lendingar. Sjálfur lærði ég að fljúga um tvítugt og kom þá einstöku sinnum fyrir að ég rækist á Hafþór niður á velli. Hann var þá þegar orðinn reyndur einkaflugmaður og á fullu í flugkennslu. Að sjálfsögðu fylgdist ég svo af aðdáun með því hvernig Hafþór byggði upp Air Atlanta í samstarfi við þau Arngrím Jóhannsson og Þóru þáverandi eiginkonu hans. Ég hygg að flugið hafi hentað Hafþóri fullkomlega; hann var einmitt prýddur þeirri rósemi og yfirvegun sem einkennir bestu flugmennina. Og fyrir þann sem hefur ánægju og áhuga á flugi er varla hægt að hugsa sér skemmtilegri starfsferil en Hafþór hlaut.

En nú er hann horfinn á braut. Hann fórst í hörmulegu flugslysi norður í Vopnafirði fyrir rúmri viku síðan. Mikill er missirinn fyrir móður hans, fjölskyldu og vini. Hann skilur eftir sig eiginkonu og tvö ung börn. Lífið virðist stundum ákaflega ósanngjarnt og óskiljanlegt.

Ég held að Hafþór hafi að mörgu leyti lifað viðburðaríkara og skemmtilegra lífi en mörgum gefst. Þó það deyfi ekki sársaukann hjá ástvinum hans, er gott að geta minnst þess. Kæra Elsa; ég votta þér og fjölskyldunni innilega samúð mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Falleg kveðja & þér til sóma, líkt & annað sem þú lætur frá þér fara.

Samhryggizt með ven þinn.

Steingrímur Helgason, 15.7.2009 kl. 00:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband