Íslendingur í Bakú

Rosalega er gaman að upplifa eitthvað sem kemur manni skemmtilega á óvart. Og þannig reyndist vera þegar ég sótti olíuborgina Bakú heim s.l. vor.

baku-night-1.jpg

Bakú er höfuðborgin í Azerbaijan; lands sem liggur á mótum Evrópu og Asíu. Eins og flestir ættu að vita var Azerbaijan hluti af Sovétríkjunum, en er í dag sjálfstætt ríki með um 9 milljónir íbúa. Þar af búa um 2 milljónir í Bakú.

Í meira en hundrað ár hefur nær allt efnahagslíf í Azerbaijan snúist um olíu. Svæðið við Bakú var eitt fyrsta olíuvinnslusvæði heimsins og þarna átti sér stað eitt mesta olíuævintýri allra tíma um aldamótin 1900 með tilheyrandi uppsprettu auðs og valda. Efnuðustu olíubarónar Azera slógu jafnvel út sjálfan Rockefeller, enda var Bakú á þeim tíma álitin einhver glæsilegasta og fjörugasta borg veraldar og gjarnan nefnd "París austursins". En kapítalisminn í Bakú fékk snöggan endi í rússnesku byltingunni, þegar bolsarnir þjóðnýttu olíufyrirtækin og sendu eigendur þeirra í fangabúðir í Síberíu.

Sökum þess að síðari heimsstyrjöldin náði aldrei til Bakú standa flestar gömlu glæsibyggingarnar enn. Þó svo innrás þýska hersins í Sovétríkin hafi fyrst og fremst haft þann tilgang að ná olíulindunum við Bakú, náði þýski herinn jú aldrei suður fyrir Kákasusfjöll. Þar réð úrslitum hin ægilega orrusta við Stalíngrad.

azerbaijan-caspian-map_1060914.pngVið fall Sovétríkjanna í upphafi 10. áratugar liðinnar aldar varð Azerbaijan sjálfstætt ríki. Azerbaijan er stærsta landið í Kákasushéruðunum, en er samt talsvert minna en Ísland. Landið á langa strönd að Kaspíahafi; því undarlega landlukta hafi sem skilur að Indóevrópumenn og fólk af asískum kynstofni. Austan Kaspíahafsins liggja lönd eins og Kazakhstan og Túrkmenistan og litlu austar er Uzbekistan. Og þá er maður farinn að nálgast sjálft Kína.

Mér hefur alltaf þótt þetta svæði vera svolítið útúr - eins og einhver dularfullur dalur í Ævintýrabók. Þessi heimshluti virðist eitthvað svo innilokaður af Svartahafi, Rússlandi, Kaspíahafi og Persíu. Maður á bágt með að trúa að þarna liggi borg sem á sínum tíma þótti jafnvel glæsilegri og vera ennþá meiri heimsborg heldur en sjálf New York. Og núna var ég loksins kominn á þessar fjarlægu slóðir.

Augun svolgruðu í sig allt sem við blasti úr leigubílnum á leið til borgarinnar frá flugvellinum. Bíllinn ók eftir prýðilegri hraðbraut en umferðin var lítil, enda eldsnemma morguns. Þarna var sléttlendi en sjá mátti smá hæðir inn til landsins. Ekki sást til fjalla, enda stendur Bakú nokkuð langt frá Kákasusfjallgarðinum. Brátt birtist Kaspíahafið á hægri hönd og við nálguðumst úthverfin með blokkum í Sovétstíl. 

Þessi síðasti flugleggur ferðalagsins hafði verið næturflug frá Kænugarði í Úkraínu. Flugvélin var heldur hrörleg rússnesk farþegaþota. Hún reyndist vera stútfull af Azerum - sem mér þóttu nokkuð þungbúnir á svip. En Azerarnir í Bakú áttu svo sannarlega eftir að reynast allt annað en þungir á brún.

ketill_baku_flag-1.jpgÞessa apríldaga sem ég dvaldi í Bakú (2010) var enn vart farið að örla á vorinu. Vindurinn barði borgina og Kaspíahafið var grátt og hryssingslegt yfir að líta. En risastór fáni Azerbaijan blakti tignarlega við fallegan göngustíginn við ströndina - og þegar sólin ruddist gegnum skýin fann maður að þarna eru örugglega yndisleg sumur.

Það var mjög notalegt að rölta eftir sjónum og skoða skipin og lúxus-snekkjurnar í höfninni - og langt í fjarska mátti greina nokkra olíuborpalla útí Kaspíahafinu. Sem fyrr segir standa enn margar af glæsibyggingunum sem reistar voru á dögum olíuæðisins í Bakú fyrir meira en heilli öld síðan. Og gamla miðborgin er víða afar falleg og sjarmerandi.

Azerar eru nær allir múslímar, en langt í frá í þeim skilningi sem mörg okkar í vestrinu freistast til að hafa um þau trúarbrögð. Þarna gengur fólk t.a.m. mjög svipað til fara eins og hér heima - unglingsstrákarnir reyndar nánast undantekningarlaust í svörtum leðurjökkum og gallabuxum - og stelpurnar ekki síðri pæjur en hér í vestrinu. Enda er skemmtanalífið í borginni af mörgum sagt með því besta í heimi (sjálfur lét ég ekki reyna á það í þessari ferð). Áfengi er ekkert feimnismál og reyndar er azerski bjórinn Xirdalan með þeim allra bestu sem ég hef smakkað! Grínlaust. Azerski maturinn var líka prýðilegur - mikið um grænmetisrétti en einnig góða fisk- og kjötrétti og minnti maturinn mig stundum svolítið á tyrkneskt eldhús.

baku-shore.jpgTil að upplifa borgina sem sterkast dvaldi ég á hóteli sem lá við eina af þröngu götunum í gamla miðbænum. Flest eru alþjóðlegu hótelin í Bakú örlítið utar. Þetta var lítið hótel í eigu vörpulegs Ameríkana á miðjum aldri, sem blandaði geði við mann við morgunverðarborðið í litla morgunverðarherberginu. Ekki tókst mér að fá upp úr honum hvernig hann hafði ratað til Bakú af öllum stöðum í veröldinni. Þessi svolítið dularfulli og hægláti gestgjafi hefði svo sannarlega verið upplögð persóna í skáldsögu eftir Graham Greene. Ég fann að þarna hlyti djúpt leyndarmál að liggja að baki.

Í útliti hygg ég að helst megi líkja Azerum við Tyrki eða Persa - eða sambland þar á milli. Hugsanlega hafa Kákasusfjöllin í gegnum tíðina komið í veg fyrir mikla blöndun við Rússana í norðri eða nágrannaþjóðirnar í vestri. Azerar hafa löngum haft sterk tengsl við Tyrkland og í dag er mikið um Tyrki sem starfa í Bakú.  Stúlkan í móttöku hótelsins reyndist einmitt vera frá Istanbúl. Af þessari stuttu dvöl ályktaði ég að milli Azera og Tyrkja ríki ákveðið bræðraþel - og sennilega best að fá báðar þessar þjóðir sem fyrst í ESB!

azerbaijan-oil-donkeys.jpgÞarna hafa Persar líka stundum vaðið yfir, enda varla nema rétt rúmir 200 km frá Bakú og suður að landamærunum að Íran. Því miður gaf ég mér ekki tíma til að skjótast þangað suður-eftir.

Í staðinn ók ég útúr borginni til að kíkja á olíusvæðin sem liggja næst henni. Það er mikið furðuland; borturnar og olíuasnar (oil donkeys) eru eins og skógur umhverfis borgina. Nema hvað þessi samlíking er kannski óheppileg að því leyti að þarna er ekki stingandi strá að sjá og jarðvegurinn bersýnilega víða orðinn mjög mengaður af langvarandi olíuvinnslunni.

Þó svo þarna væru skilti útum allt sem sögðu myndatökur bannaðar var stolist til að smella af nokkrum myndum. Ég stoppaði líka við einn af gaseldunum eilífu sem loga sumstaðar í löndunum við Kaspíahaf. Þar er um að ræða gasuppstreymi úr jörðu, sem gefur vel til kynna geggjaðar kolvetnisauðlindirnar sem þarna er að finna. Fór líka að sveitasetri Murtuza Mukhtarov's, sem var einn af helstu olíubarónunum í Bakú áður en Sovétið varð til, en þar er nú opinber grasagarður kringum gamla glæsihúsið.

Inni í borginni var líka margt að sjá. Þess má geta að nánast engir ferðamenn sáust í borginni. Þeir fáu útlendingar sem voru á hótelinu eða maður sá á götum úti voru bersýnilega í viðskiptaerindum. Á sumrin mun þó vera talsvert um ferðafólk í Bakú. Víðast hvar er borgin afar snyrtileg og allsstaðar verið að gera upp gömul hús og laga götur og torg. Líklega er þessi verkamannavinna lausn á dulbúnu atvinnuleysi, kostuð af ofsalegum olíugróðanum.

baku-war.pngÖllu dramatískara var að vappa um hermannagrafreitinn þar sem legsteinar í tuga- ef ekki hundraðatali báru myndir af þeim ungu mönnum sem þar liggja undir; hermenn sem hafa fallið í átökum við Armeníu um héraðið Nagorno-Karabakh.

Þegar ég svo fór að rækja erindi í háskólann, frétti ég að einungis um ári áður hafði maður þar skyndilega dregið upp skotvopn á látið kúlnahríðina dynja á nemendum og starfsfólki háskólans. Meira en tugur manna lést og annar tugur lá í sárum.

Þarna er sem sagt svolítið ótryggt ástand og kannski ekki að undra að í Bakú voru ábúðarfullir lögreglumenn á hverju strái. En sjálfur varð ég ekki fyrir minnstu afskiptum frá þeim, né nokkrum óþægindum meðan ég dvaldi í landinu. Og hef satt að segja sjaldan kynnst jafn hjálpsömu og þægilegu fólki eins og íbúum Bakú. Einfaldlega yndislegt fólk.

Svo finnst mér alltaf skemmtileg sú kenning Thor's Heyerdahl um að norrænu víkingaþjóðirnar hafi a.m.k. að hluta til komið frá Azerbaijan. Og þaðan komi hugtakið Ás (Æsir). Kannski tómt bull - en ég fann samt fyrir góðum fíling þarna í olíusullinu austur í Bakú. Eitt eftirminnilegasta og ánægjulegasta ferðalag mitt var senn að baki og tímabært að halda út á Heydar Aliyev flugvöll. En svo fór Eyjafjallajökull að gjósa af krafti og fyrir vikið varð ég strandaglópur í Kiev í Úkraínu. Sem reyndist bara skemmtilegur bónus á frábæra ferð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband